03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Það er oft ánægjulegt að heyra athugasemdir og spádóma háttv. þm. Vestm. (J. M.), en honum hefir oftast tekist betur en hér, enda mun hann ekki vera alskostar óviðriðinn.

Hann sagði, að erfitt væri að láta fara saman skoðun á skipum og vélabátum hér og syðra, vegna þess, að þeir legðu allir út á sama tíma. Þetta er alveg spánný uppfundning hjá hv. þm. Trollarar eru á veiðum hér árið í kring þilskipin leggja vanalega út fyrst í febrúar en bátar talsvert seinna, nema ef vera skyldi í Vestmanneyjum — það er mér ókunnugt um — en skoðunarmönnum úr Reykjavík er heldur ekki ætlað að fara þangað. Hann sagði, að afleiðingin af þessu yrði sú, að skoðunarmönnum yrði að fjölga að mun og sé eg ekki að það væri nein frágangssök. Hitt er rangt, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði geti skipað menn í Reykjavík til að skoða skip hjá sér. Annars hygg eg, að skoðunarmenn þeir, er nú eru hér í Reykjavík viti þetta fult eins vel og hv. þm. Vestm. (J. M.) og þeir treysta sér fullvel til þess að skoða skip í Gullbringusýslu.

Háttv. þm. sagði og að skoðunarmenn gætu eftir núgildandi lögum heimtað skipin tæmd og sett á land, eða að öðrum kosti neitað að gefa skoðunarvottorð, en þetta er ekki rétt og að minsta kosti telur sá skoðunarmaður, sem eg hefi átt tal við, sig skorta vald til þess. En hvað sem því líður, þá er miklu tryggara að fá skoðunarmönnunum þetta vald með beinum orðum. Við vitum það vel bóngóðum mönnum er hætt við að gefa eftir, þar sem ekki er skýlaus lagabókstafur fyrir. Eg veit mörg dæmi þess að gefið hafi verið eftir, jafn vel þar sem ekki mátti gefa eftir, og hv. þm. Vestm. (J. M.) mundi líklega líka finna einhver dæmi þess, vildi hann vel leita. Þess vega er hætt við, að verði skoðunarmönnum aðeins gefin heimild til þess að tæma skipin og draga þau á land, að það verði þá ekki annað en dauður bókstafur, en sé það skýlaust heimtað, þá er síður hætt við að þeir verði of eftirgefanlegir . Þetta vakti fyrir nefndinni, en hún vildi samt gera það hv. þm. til þægðar að slaka dálítið til og tók því upp í frv. orðin „að jafnaði“.

Eg vona að það gangi eins með þetta frv. og frv. um áfengissöluna, sem lá hér fyrir um daginn. Hv. þm. Vestm. (J. M.) mælti fyrst á móti öllum athugasemdum mínum við það, en þær voru þó samþyktar síðar allar, eða allflestar.

Út af orðum hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) nægir væntanlega að vísa til heilbrigðrar skynsemi um það, að sjór getur gengið ekki síður í farmrúm skips en önnur rúm þess, og á sama má þeim, sem á skipinu eru, standa hvort þeir drukna af því að sjór gengur í skipið á einum stað eða öðrum.

Göt og gallar geta dottið á skip bæði utan og innan. Það hefir margsinnis komið fyrir að skip hafa skemst við það að losnað hefir eitthvað af farmi í þeim. (Björn Kristjánsson: Í lestarrúmunum?) Já, einmitt í lestarrúmunum. Sömuleiðis kvað það ekki ótítt, að viðir fúni af því að vatn næst ekki til fullnustu með pumpum. (Björn Kristjánsson: Nei.). Það mundi jafnvel slá í þm., ef hann lægi lengi í vatni.