23.08.1912
Sameinað þing: 7. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

105. mál, sambandsmálið

Benedikt Sveinsson:

Öllum hljóta að vera í fersku minni afdrifin, sem þetta mál fjekk hjá þjóðinni, þegar það var borið undir hennar atkvæði árið 1908, hversu sjálfstæðismenn báru þá sigur úr býtum og samþyktu veturinn eftir vantraustsyfirlýsingu á ráðherra með 25 atkvæðum þjóðkjörinna manna fyrir frammistöðu hans í þessu máli.

Það er afar einkennilegt að sjá ýmsa af sömu mönnunum vera nú að fela þessum sama manni að fara að garfa í sama málinu, sem þeir fordæmdu hann fyrir 1909! Væri fróðlegt að fá skýringar á þeim miklu og snöggu stakkaskiftum. Mönnum eru ekki úr minni liðnar allar þær fordæmingar, sem maklega dundu á frumvarpinu 1908, ekki minst hjer í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þá var ekki margt í því eftirsóknarvert. Nú þykir þjóta annan veg í þeim skjá. — En hvað er frumvarpið nú betra en það var 1908? Þá þótti það ekki heillavænlegt fyrir íslenzku þjóðina, að leggja utanríkismál og hermál undir danskt ríkisvald um aldur og æfi, nje að láta gerðardóm með þremur Dönum og tveim Íslendingum skera úr, hvað væru sjermál Íslands. Ekki voru menn heldur neitt hrifnir af því að veita Dönum jafnrjetti við landsmenn um fiskiveiðar í landhelgi, þótt það væri að nafninu til uppsegjanlegt mál. Það atriði var eins og fleiri í frumvarpinu blekkingin einber, því að uppsögnin var því skilyrði bundin, að Íslendingar tæku að sjer landhelgisvörnina með leyfi Dana. En það hefði þeim verið ómögulegt, samkvæmt þeim skýringum ráðherra og annara heimastjórnarmanna, að engin þjóð geti haft landhelgisvörn á hendi, nema hún hafi viðurkendan her.

Hvað getur rjettlætt þennan greipilega snúning sjálfstæðissvikaranna? Það ætti kannske að vera þessi nýi bræðingsráðherra, sem þeir vilja nú láta Ísland kosta suður í Kaupmannahöfn. En það er víst óhætt um það, að sá maður yrði, eins og einn af frumherjum bræðingsins sagði á fundi í vetur,: „valdalaus og áhrifalaus áheyrandi“, sem að engu haldi kæmi þjóð vorri. Hann mætti sín einskis gagnvart Dönum. Hitt er annað mál, að hann kynni með tímanum að geta náð undir sig valdi stjórnarinnar hjeðan að heiman, dregið valdið út úr landinu — og hefur það kannske vakað fyrir þeim herrum, sem hjer á árunum börðust mest fyrir Hafnarstjórninni! Þeir væru þá að hallast að sinni fyrri loflegu stefnu, Hafnarstjórnarstefnunni!

Heimastjórnarmenn hafa sífeldlega látið það klingja síðan 1909, að nú væri búið að „spilla fyrir málinu“. Það er því mjög einkennilegt, að þeir skuli þá vera að fitja upp á þessu máli nú, þegar aðstaðan, að sjálfra þeirra sögn, er verri en áður. — Varla bætir það aðstöðuna, að hinn lofsæli konungur er fallinn frá, sem vildi unna Íslendingum jafnrjettis, og sjálfur kallaði hann Ísland ríki, þegar hann heimsótti þjóðina.

Hversvegna er verið að flana að þessu máli nú? Hverjar eru ástæðurnar? — Það þýðir ekkert, að vera að vitna til þjóðarviljans og skírskota til þingmálafunda. Þetta er beinlínis gert á bak við þjóðina, því að hún hefur ekki dæmt um sambandsmálið síðan í þingkosningunum 1908, og með vantraustsyfirlýsingunni á hendur ráðherra, og þar við stendur af þjóðarinnar hálfu. Kosningarnar í haust snerust um alt annað: Fyrst og fremst um stjórnarskrármálið, sem sjálfstæðismenn hjetu kjósendum sínum að leiða til lykta á þessu þingi. En þeir háu herrar hafa svikið kjósendur, sem gerðust svo tryggir að trúa þessum svikurum. Þá var silfurbergið notað óspart við kosningarnar, og reynt að gera það að gífurlegu stórmáli. Moldviðrið, sem þá rauk upp, hefur vafalaust haft nokkur áhrif á kosningar víðar en hjer í Reykjavík. Loks má minnast á fjeglæfrakenningarnar, sem blessaður biskupinn var að básúna fyrir kosningarnar. Honum fanst, að enga mætti kjósa til þings nema ríkisbubba; hitt virtist engu varða, hvernig auðsins væri aflað, þótt „standsmennirnir“ væru þjófar eða þess konar heiðursmenn, gerði ekkert, bara að þeir væru ekki efnalitlir! — Með þessum og þvílíkum kenningum var alþýðunni leiðbeint fyrir kosningarnar síðastliðið haust.

Nú á að fara að telja þjóðinni trú um það, að hún sje sjálf að óska eftir því, að frumvarpsdraugurinn sje vakinn upp úr gröf sinni. Hvílík herfileg fjarstæða. Þjóðin hefur einmitt sýnt það í vor, síðan bræðingurinn birtist, að hún ber óhug til þessa máls, og kjósendur hafa ekki virt þingmenn þess, að sækja fundi þeirra. Það er hreint og beint hlægilegt, að vera að tala um óskir þjóðarinnar, sem komið hafi fram í þessu máli á þingmálafundum. Hvernig eru þeir fundir? Í einu helzta kauptúni á Vesturlandi komu 5 menn á fund; þrír þeirra eru með bræðing og tveir á móli. í Gullbringu- og Kjósarsýslu, fjölmennasta kjördæmi utan Reykjavíkur, fást einir 15 menn (í Hafnarfirði) til að samþykkja bræðingstillögu þingmannsins eftir mikið sarg. Og þessir 15 menn eru víst flestir komnir á rjettan kjöl aftur. Svona er nú veigamikið fylgið meðal þjóðarinnar, sem verið er að vitna til.

Þetta mál er boðað undir yfirskyni friðarins, þótt þjóðinni sje hjer einmitt boðinn hinn versti ófriður. Það er sannarlega ekki friðvænlegt, að fara að hefja nýjar deilur um þetta viðkvæmasta mál þjóðarinnar, með þeirri aðferð, sem höfð er í frammi. Hjer verður endurtekinn sami leikurinn sem 1908! Eina vonin um framgang þessa máls, hlýtur að byggjast á blekkingum, þýðingarvillum eins og 1908, og alls konar ofríki við kjósendur. Gegn um þingið kemst það ekki nema með ofbeldi (Forseti: Jeg átel þessi orð hjá ræðumanni og tek af honum orðið, ef hann ekki gætir hófs). Jeg tala það, sem mjer sýnist fyrir forseta, og þykir hart, ef jeg er sviftur málfrelsi, meðan jeg brýt ekki þingsköp. Hitt get jeg vel skilið, að þeim þyki klaksárt að heyra sannleikann, sem sjálfir voru viðriðnir blekkingarnar og tekstavillurnar, sem þjóðinni voru boðnar 1908.

En þótt þetta mál kynni að slysast í gegn um þingið, þá mundu augu þjóðarinnar opnast síðar og samningurinn verða „upphaf að endalausum deilum“, eins og Ragnar Lundborg sagði 1908. Þjóðin lætur ekki bjóða sjer tómar blekkingar til langframa.

Þessi stóri flokkur, bræðingsflokkurinn, þykist nú eiga mikið undir sjer, „þykist öllum fótum í jötu standa“, eins og Gísli Súrsson sagði um Þorkel bróður sinn. Þorkell var þá bráðfeigur. Þætti mjer vera mega, að þessi rembiláti flokkur væri ekki ófeigari.