23.08.1912
Efri deild: 33. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

37. mál, vörutollur

Sigurður Eggerz:

Háttv. þm. Ísafj. talaði hjer í gær um poka: kolapoka og syndapúka og þótt það væri freistandi að halda áfram, að tala hjer um allskonar poka, þá mun jeg leiða það hjá mjer; aðeins vildi jeg leggja áherzlu á, að ef kolapokinn eða tollurinn á honum hefði orðið þungur á samvizku háttv. þingm., þá skil jeg ekki, að það ljetti á henni, að saltpokanum, matvörupokanum og allranauðsynjavörupoka er bætt á hana.

Sami háttv. þm. taldi, að 6. liður 1. gr. kæmi mest niður á útlendingum. Undir þessum lið er aragrúi af allskonar vörutegundum, en mjer er hrein gáta, hvað af þessum vörutegundum útlendingar sjerstaklega brúka.

Annars er þessi liður einn nægur til þess, að sýna ranglæti frv.; undir honum eru hinar nauðsynlegustu vjelar, svo sem sláttuvjelar, iðnaðarvjelar, o. s. frv., sem ættu að vera tollfríar, og einnig gullvörur allskonar og glysvarningur, sem þola háan toll.

Sannleikurinn er sá, að ef frv. þetta verður samþykt, þá veit enginn, hvernig það kemur niður; til þess vantar allan útreikning, aðeins er hægt að segja það, að það kemur ákaflega hart niður.

Sami háttv. þm. kendi fráfarandi stjórn um þær ógöngur, sem við værum komnir í skattamálunum, (Sig. Stefánsson: Fráfarandi stjórnum), en þetta er ekki rjett hjá þm.; það er ekki hægt að gefa síðustu stjórn neina sök á því. Milliþinganefndin átti þar að vera hjálparhellan, og stjórnin, sem aðeins var bráðabirgðarstjórn, bygði vitanlega traust sitt á því, að hún mundi koma með þær tillögur í skattamálunum, sem dugað gætu, þó reyndin hafi orðið sú, að þær hafi fengið lítinn byr.

Háttv. þm. sagði ennfremur, að ekki mætti neyða upp á stjórnina skattamálafrumv., sem hún gæti ekki tekið við. Þessu vil jeg svara því einn, að eftir þeim dómi, sem hæstv. ráðh. hefur áður lagt á stefnu þessa frumv., virðist mikil ástæða til að ætla, að honum sje kolatollur kærari, en þetta frumvarp, enda þótt hann kynni að hafa eitthvað einnig að athuga við hann í þessari mynd, sem hann er framkominn í hjer á þinginu.

Sami háttv. þm. kallaði það drengskap, sem væri samfara æskunni, að vilja halda einhverju til streytu, en jeg verð að álíta, að telji maður eitthvert mál rjett, þá sje sjálfsagt að vinna að því af öllu afli. En að hætta við það að óreyndu á miðri leið, það tel jeg ellimörk.

Sami háttv. þm. kallaði það, að hann hefði sýnt sjálfsafneitun, er hann fjell frá árgjaldsfrumvarpi sínu, en það er annað orð mikið rjettara yfir það, og það er vonleysi, því að það var af vonleysi um framgang málsins, að hann hætti að halda því fram; ef ekki, hví skyldi hann þá ekki hafa fylgt því? Og þar sem hann var að tala um, að kolatollurinn hefði verið sóttur af kappi, þá var það þvert á móti, það voru andmælendur hans, háttv. þm. Ísafj. og fleiri, er sóttu það af kappi, að hann kæmist ekki úr deildinni.

Þar sem allir telja frumv. þetta neyðarúrræði, og það jafnvel einnig þeir, sem ætla að samþykkja það, þá sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja meira um málið.