12.08.1912
Efri deild: 22. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Ágúst Flygenring:

Jeg vil að eins skjóta því til væntanlegrar nefndar, hvort eigi væri hægt að fá lækkaða tölu þeirra lotteríseðla, er selja má hjer á landi, því vitanlega er það aðalgalli frumvarpsins, hversu sú tala er há.

Það eru svo augljós dæmi þess alstaðar þar sem lotteríseðlasala er tíðkuð, að fátækt fólk eyðir altof miklu fje til seðlakaupa, og hefur mikla tilhneigingu til að treysta á blinda hepni. Að þessu leyti er lotteríseðlasala afar óholl, þar sem mikið er að henni gert, sem einkum á sjer stað í Suður-Evrópu; enda mætti nefna hana þar hreina landplágu, t. d. á Spáni, þó þjóðirnar geti ekki upprætt hana, eða eigi mjög erfitt með það nú orðið, af því ríkin og einstakir menn njóta stórtekna af þessum lotteríum.