17.08.1912
Efri deild: 27. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Jens Pálsson (framsögum.):

Háttv. þm. Skagf. leit á hina siðferðislegu hlið málsins og taldi varhugavert og út af fyrir sig siðferðislega rangt, að lögleiða lotterí hjer á landi. Jeg skal engan veginn finna að þessari skoðun hans.

Til þess eru mjer of kunnar skoðanir merkra siðfræðinga að fornu og nýju. Mjer er vel um það kunnugt, að sumir þeirra eru í þessum efnum afar strangir og þröngsýnir. Þeir fordæma tombólur og happdrætti um hluti, veðmál, og jafnvel sjerhvert hlutkesti um verðmæti eða rjettindi, og allar þær athafnir, sem nokkur minsta fjárhætta sje við bundin; þeir eru til, við vitum það, sem dæma það stórsynd og fordæma það harðlega, að spila L’hombre upp á 10 aurabitir; það sje fjárhættuspil, segja þeir, og spilli mönnum. Jeg verð samt að líta svo á, að slíkar ályktanir sjeu öfgakendar og rangar. Það er að vísu hugsanlegt, að þær manneskjur sjeu til, sem geti orðið fíknir í að spila vegna slíks smáræðis, sem jeg gerði ráð fyrir, að undir væri lagt. Jeg geng inn á, að hugsanlegar sjeu svo óþroskaðar manneskjur; en í reyndinni verða þær hverfandi fáar, svo örfáar, að til þeirra er lítið tillit takandi. — Flestum sæmilega þroskuðum manneskjum er ekki hætt við fjárhættuspilsástríðu, sem auðvitað er siðspillandi, ekki síður en hver önnur spilt ástríða. Annars er hætta þessi relatív, eins og flest alt, ef ekki alt undir sólunni. Hve mikil hættan er fyrir menn, fer eftir því, hve þroskaðir þeir eru, að hve miklu leyti þeir þekkja slíka hluti, hverju þeir hafa vanizt, hvert og að hve miklu leyti þeir hafa kynzt slíku eða því líku og umgengizt það, eða átt við það að etja.

Hvernig stöndum við Íslendingar nú að vígi í þessu efni?

Seðlar þeir, sem aðallega munu verða keyptir hjer á landi í þessu lotteríi, verða 1/4 eða öllu heldur 1/8 parts, og verður ekki talið, að með því sje stórfje í hættu lagt.

Hverju svipuðu erum vjer orðnir vanir? Sífeldum tombólum, alltíðum hlutalotteríum. Þetta er jafnaðarlegast notað til fjársafns um fjelagsfyrirtæki. Ennfremur hefur sjerlega óstöðug veðrátta, stopular sjógæftir og brygðular fiskigöngur valdið því, að atvinna þessarar þjóðar hefur um aldir verið líkari fjárhættuspili, en nokkurrar annarar menningarþjóðar, sem jeg þekki til. — Jeg vil spyrja háttv. þm. Skgf., hvað hafa fiskiveiðar vorar t. d. að undanförnu verið, annað en áhættulotterí? Og enn eru þær það að miklum mun, og munu verða. Atvinna sveitabóndans er og sífeld áhætta hjer á landi; alt af vofir einhver hættan yfir honum. Er það t. d. ekki fjárhætta, að taka og verða að halda dýrt kaupafólk í landi, þar sem brugðið getur til rigninga með sláttarbyrjun og rignt látlaust til höfuðdags. Menn eru sannarlega vanir áhættu á þessu landi. Hún er landsmönnum engin nýung; við stöndum einmitt að því leyti vel að vígi gagnvart þessari lotterístofnun, og hættan fyrir fjárhættuspils-ástríðu þessu lotteríi þessvegna tiltölulega lítil. — Hjer er það í boði, að Ísland, með því að nota erlenda markaði, eða ljósara sagt, með því að nota önnur lönd, hvar sem bezt gengur, að markaði fyrir seðla sína, græði á þeirra lotteríseðla-kaupum. Ísland græðir tvímælalaust álitlegt fje á þessu lotteríi. En hvað gerir það sem stendur? Íslendingar kaupa að mun seðla í erlendum lotteríum og þjóðin tapar á því stöðugt verulegum peningum. Ísland ljær sig þannig útlendum lotteríum til að tapa fje; en nú stendur því til boða, að nota erlendan markað fyrir sitt lotterí, til að græða fje árlega. —

Að öllum þessum og fleiri ástæðum skoðuðum, mun jeg hiklaust greiða málinu atkvæði mitt. —