17.08.1912
Efri deild: 27. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Jens Pálsson (framsögum.):

Háttv. þm. Árn. leit svo á, að það hefði ráðið sigri þessa frv. hjer á þingi, að landssjóð vantaði fje, og að honum kæmi því vel væntanlegur tekjuauki af frv. Jeg get ekki fallizt á, að þetta sje rjett hjá háttv. þingm. Jeg tel vafalaust, að þeir, sem athuguðu málið í Nd. og fjölluðu um það þar, hafi ekki aðhylzt frv. af þessari ástæðu einni, og jeg er viss um, að þeir hefðu ekki fylgt frv., ef þeir hefðu ekki talið það gott í sjálfu sjer, og í alla staði aðgengilegt. Þeir hafa ekki að neinu leyti verið mótfallnir því. Og jeg er þess viss, að þeir hefðu ekki gengið að frumv., ef þeir hefðu ekki haft vissu fyrir, að landssjóður gæti ekki gert sjer meiri gróðalind úr því.

Háttv. þingm. Árn. hjelt, að frv. væri örugg gróðalind. Jeg skal fúslega kannast við það, að jeg hjelt það sjálfur framan af, er jeg hafði ekki kynt mjer málið eins rækilega, og jeg hef gert síðar, og var þá mjög harður á því, að sjálfsagt væri, að heimta hærra gjald af leyfishöfum en frumv. ákveður. En samkvæmt þeirri vitneskju, sem jeg hef aflað mjer um þetta efni, gæti jeg nú vel trúað því, að leyfishafar töpuðu á lotteríinu fyrstu árin. Fyrirtækið alt byggist á því, að gróði verði að því, þegar frá liður. En hjer er ekki um mörg ár að tefla — ekki nema 15 ár. Og ef jeg væri stofnandi þess fyrirtækis, mundi jeg óttast, að þessi tími væri fulltæpur til þess, að fá byrjunarkostnað og væntanlegt byrjunartap uppborið, og síðan ágóða og verulegan gróða að leikslokum. Jeg skal geta þess. að jeg að vísu þekki þess konar fyrirtæki, sem hjer er um ræða, ekki nema af afspurn. En það má gera sjer nokkra líkindaáætlun um þetta, sem jeg hygg að fari nærri lagi, og þessi áætlun er þannig: Samkvæmt frumv. eiga vinningarnir að nema að minsta kosti 70% af iðgjöldunum samantöldum. Þegar slíkt fyrirtæki sem þetta er stofnsett, þá þarf það að laða menn að sjer. Það þarf bæði að telja menn á að nota lotterí og í öðru lagi þarf að fá þá, sem nota önnur lotterí, til þess að skifta við sig, og koma þeirri skoðun inn hjá þeim, sem spila í lotteríum, að þeim sje eins gróðavænlegt að nota sitt lotterí eins og önnur. Til þess verða þeir að auglýsa og gera alþjóð manna kunnugt fyrirtæki sitt, það því fremur, sem í Danmörku og nágrannalöndunum er fult upp af lotteríum, sem leyfi hafa til að selja lotteríseðla í löndum, þar sem engin lotterí eru til. Það mundi kosta mikið að ná í viðskiftamenn frá þeim; það þarf því bæði á „agentum“ og auglýsingum að halda, og þetta kostar kannske 10%— 20%, segjum 15%; 6 menn eiga að sitja í nefnd og nokkuð verður að borga þeim. Þá á að greiða landssjóði 4%, og sú upphæð getur numið meiru, ef svo illa selst, að þetta hundraðsgjald nemur ekki 138.000 frönkum. Leyfishafar þurfa og að setja stórfje til tryggingar. Nokkuð má og reikna til reksturskostnaðar við lotteríið, burðargjalds undir seðla, viðskiftabrjef o. fl. Og þegar þetta er alt komið, fer ekki að verða eftir mikill ágóði, sem um verður að tefla. Ef t. d. salan gengur illa fyrstu árin, ef það selst t. d. ekki nema 1/4 hlutanna, þá er auðsætt tap af fyrirtækinu, sem verður að vinna upp, áður en næstu 15 ár eru liðin. Þá getur ráðherra tekið leyfið af leyfishöfum með eins árs fyrirvara, getur tekið það af þeim án nokkurrar ívilnunar af landssjóðs hendi. Ef þá væri fengin vissa fyrir því, að fyrirtækið væri stórgróðalind, gæti farið svo, að landssjóður heimtaði hærra hundraðsgjald fyrir leyfið til að reka það, eða seldi það öðrum, sem byðu betri kosti, eða ræki sjálfur lotterí. Það er ekki gott að gizka á, hvað af þessu þrennu hann kysi. Jeg skal játa það, að mjer þótti gjald þetta lítið í fyrstu, og skal líka játa, að mjer þótti líklegt, að semja hefði mátt um málið á öðrum grundvelli; þeim grundvelli, að hærra gjald skyldi greiða, er meira seldist af hlutum; að því meira skyldi, með öðrum orðum, greiða í landssjóð, því meiri ábati sem yrði af fyrirtækinu (hækkandi „scala“). En það var ekki sanngjarnt, að fara fram á slíka stígandi hækkun á þeim grundvelli, er hjer er samið á. Slíkt gat ekki samrýmzt fastákveðinni upphæð sem „minimum“ — þessu hjer setta lágmarki afgjaldsins, 138 þús. franka á misseri.