30.07.1912
Efri deild: 12. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

4. mál, breyting á alþingistíma

Sigurður Eggerz:

Jeg mun verða stuttorður, þar sem jeg hef áður tekið fram í það, sem mjer þótti mestu skifta í máli þessu, og nýar verulegar mótbárur engar fram komnar gegn flutningi þingtímans.

Því var fleygt, að mjer við 1. umr., að jeg mundi ekki hafa vit á, hvenær bezt væri fyrir bændur að vera burtu frá búum sínum, en einmitt um þetta atriði hef jeg umsögn bænda sjálfra í mínu hjeraði, og telja þeir nálega allir sumartímann hentugri en vetrartímann til þinghalds, og þótt bændur hjer í deildinni liti öðruvísi á þetta mál, sýnir það að minsta kosti ekki annað en að skoðanir bænda um málið eru skiftar. Jeg endurtek það ennþá, það má ekki útiloka neinar stjettir manna frá því að geta sent fulltrúa á þing, en það er einmitt það, sem gert er með vetrarþingunum.

Og þó þingmaður Húnvetninga hafi rjett fyrir sjer, að ferðir á veturna sjeu færar þeim, sem karlmenni eru, þá er það að vísu satt, en víðar er hægt að neyta karlmensku en á vetrarferðum, og þegar um tvent er að ræða, að öðru jöfnu, hörkuna eða hitann, munu flestir svo mikil karlmenni, að þeir velji ekki hitann.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að segja frekar um þetta mál; vísa til þess, sem jeg hef áður tekið fram.