02.08.1912
Efri deild: 14. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Stefánsson (flutningsm.):

Þetta frumv., sem við flytjum hjer, fer aðallega fram á tvær breytingar á því, sem nú er. Í fyrsta lagi eru fæðispeningar þeirra þingmanna hækkaðir, sem búsettir eru utan Reykjavíkur, og svo er ferðakostnaður þeirra ákveðinn.

Um fyrri breytinguna, hækkun fæðispeninganna, munu tæplega vera skiftar skoðanir. Það hefur lengi verið talað um það, að hækka fæðispeningana, sem ákveðnir eru eftir núgildandi lögum,og það er þegar orðin almenn skoðun, að við svo búið megi tæpast standa lengur. Um daginn, þegar frumv. um færslu þingtímans var til umræðu hjer í deildinni, þá leyfði jeg mjer að færa rök fyrir því, að þessi almenna skoðun væri rjett. — Þó mundi jeg ekki hafa komið fram með þetta frv., ef jeg þættist ekki þess full viss, að innan skamms verði afgreitt frá þinginu lög, er færa þingtímann aftur til 1. júlí. Þó fæðispeningarnir sjeu nú mjög lítil borgun, þá hefði jeg þó talið þessa borgun viðunandi enn um nokkur árin, ef þingtíminn hefði haldist óbreyttur.

Frá minni hálfu er því þetta frumv. fram komið eingöngu vegna færslu þingtímans til sumarsins.

Sumarþingin baka bændum stórkostlegan kostnað, sem þeir geta alveg verið lausir við, ef þingið er háð að vetrinum. Jeg á við þann mikla kostnað fyrir bóndann, að taka sjer mann til þess að stýra búinu um bjargræðistímann. Sá kostnaður nemur um þingtímann 144 kr. eða 72 kr. á mánuði. Eins og jeg tók fram í ræðu minni um daginn, er alt kaup þingmannsins 336 kr. um þingtímann. Ef maður dregur þessar 144 kr. frá, þá á hann eftir 192 kr. Fyrir þær á hann að kaupa sjer allar lífsnauðsynjar hjer í Reykjavík. Fæðið kostar 80 kr., húsnæðið eitthvað um 60 kr., og ekki má reikna honum minna en 40 kr. fyrir þjónustu og önnur nauðsynleg útgjöld. 12 kr. eru þá eftir af kaupinu. Og jeg hygg, að frekar verði fundið það að þessum reikningi, að hann sje of lágur en hitt.

En það álitum við flutningsmennirnir alveg ósæmilegt fyrir þjóðfjelagið, að launa starfsmönnum sínum svo illa, að þeir hafi fjárhagstjón af starfi sínu í þarfir þess.

Á þessu byggist hækkun sú á þingfararkaupi alþingismanna, sem frumv. fer fram á. Þingmenn búsettir í Reykjavík hafa, samkvæmt frumv., sömu fæðispeninga og hingað til, og teljum við flutningsmenn þá eins vel, eða jafnvel betur haldna af því kaupi, en aðkomna þingmenn af hinu hækkaða kaupi.

Hin aðalbreyting frumv. er ákvæðið um ferðakostnaðinn. Þetta atriði hefur oftar en einu sinni komið fram á þing áður, en ekki náð fram að ganga.

Það er sjálfsagt vandamál, að meta rjett þann kostnað, en hins er ekki að dyljast, að ferðakostnaðarreikningar þingmanna hafa oft verið mjög misjafnir og það undarlega mjög í samanburði við vegalengdir, og stundum ósanngjarnlega háir.

Þetta er leiðinlegt fyrir þingið og hefur líka oft verið notað til að vekja tortrygni gagnvart einstökum þingmönnum og ríra virðingu þeirra í augum almennings, oft að vísu að ástæðulausu, en stundum með nokkrum rökum.

Jeg verð því að telja mikið unnið við það, ef takast kynni að fastákveða ferðakostnaðinn þannig, að þingmenn væru fullvel sæmdir.

Aðalstefna okkar í frumvarpinu er sú, að miða ferðakostnaðinn við sjóferðir, enda þótt ekki sje hægt að gjöra það alstaðar, þar eð um ýms þau hjeruð getur verið að ræða, þar sem sjóferðir geta ekki komið til greina, svo sem er um sum kjördæmi Suðurlandsundirlendisins.

Jeg skal og geta þess, að með tilliti til frumvarpsins um færslu þingtímans er ferðakostnaðurinn miðaður við sumarferðir.

Jeg skal ekki að þessu sinni fara út í einstakar upphæðir, sem frv. getur um. Jeg býst við því, að nefnd verði sett í málið, til að athuga það grandgæfilega, því jeg efast ekki um það, að okkur flutningmönnunum geti hafa sjezt yfir að ýmsu leyti.

Viðvíkjandi því, að miðað er við sjóferðir, skal jeg geta þess, að hingað til hefur það komið fyrir, að sumir þingmenn hafa farið landveg, enda þótt þeir hefðu getað farið sjóveg, og ferðakostnaður þeirra hefur því orðið miklu hærri. Með því er landinu gerður óþarfa kostnaður.

Að lokum vil jeg minnast á það, að við gátum ekki skilið við ferðakostnaðaráætlunina, án þess að slá þann varnagla, að eiga skyldi þingmaður rjett á að fá endurgoldinn þann kostnað, er kynni að hljótast af óviðráðanlegum atvikum (sbr. 3. gr.), svo að hann yrði þá að gera sjerstakan ferðakostnaðar-reikning.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um málið, við þessa umræðu. En jeg sting upp á því, að 5 manna nefnd verð kosin í málið, að lokinni þessari 1. umr.