13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jósef Björnsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer í deilur þeirra háttv. þm. Ísaf. og háttv. þm. V.-Sk. En það, sem kom mjer til að standa upp, var það, að jeg; kann ekki við það ákvæði í 1. gr. frv., að þingmenn þeir, er búsettir eru í Reykjavík, skuli hafa minna í dagpeninga, en þeir þingmenn, sem búsettir eru utan Reykjavíkur. Jeg játa, að háttv. flutningsmaður hefur mikið til síns máls í því, að það er kostnaðarminna fyrir Reykvíkinga, að sitja á þingi, heldur en þá, sem búsettir eru utan höfuðstaðarins. En þótt þessu sje nú þannig háttað og öll sanngirni kunni að mæla með að skoða málið frá þessu sjónarmiði, þá lít jeg samt sem áður svo á, að það sje óheppilegt, að allir þm. fái ekki sömu laun fyrir vinnu sína, er þeir sitja á sama þingi og vinna sömu störf, hvernig sem þeir kunna að vera settir að öðru leyti. Það verður að vera þeim happ, sem hlýtur. En fleiri ástæður eru og til þess, að telja verður hæpið, að rjett sje að gera þennan mismun á reykvíkskum þingmönnum og öðrum þingmönnum. — Jeg ætla að nefna eina af þessum ástæðum, þótt það sje hálf leiðinlegt, að láta uppi það, sem fyrir mjer vakir. — Þessi ástæða, segi jeg, er sú, að jeg get ímyndað mjer, að mismunur á laununum verði til þess, að farið verði til að blása í lúður fyrir því að kjósa Reykvíkinga á þing, af því að þingseta þeirra sje landinu ódýrari. En jeg er ekki þeirrar skoðunar, að störf þingsins verði betur af hendi leyst, ef margir Reykvíkingar sitja á þingi. Og sje litið til reynzlunnar undanfarið, er ekki ástæðulaust að ætla, að það geti komið fyrir, þegar kosningabardaginn er háður með miklum ákafa og hita, að blöð landsins taki í þennan streng, sem jeg hef bent á. Hjer er um svo smávægilegan sparnað að ræða, að jeg lít svo á, að enginn hagur verði að honum. Hann veitir pólitískum æsingamönnum færi á að villa kjósendum sýnir og vekja óhug á því, að kjósa sveitamenn á þing. Jeg skal taka það fram, að jeg segi þetta alls ekki í því skyni, að gera lítið úr hæfileikum ýmsra reykvízkra þingmanna, þótt jeg hins vegar telji eigi heppilegt, að margir Reykvíkingar sitji á.

Úr því að jeg stóð upp, skal jeg geta þess, að jeg sje ekkert óeðlilegt við það og finst engin minkun í því, þótt laun þingmanna sjeu hækkuð í líkingu við laun annara starfsmanna landsins. En áhugi er mjer enginn á því, að frv. nái fram að ganga. Á hinn bóginn get jeg, eins og háttv. þingdeildarmenn hafa heyrt, ekki felt mig við þann mismun, sem hjer er gerður á kaupi þingmanna. Þó vil jeg ekki greiða atkvæði á móti frv., því að það má ráða bót á þessu við 3. umr. En jeg mun heldur ekki greiða atkv. með því að þessu sinni. Það verður að gæta þess, að hjer er í sjálfu sjer ekki um mikinn kostnaðarauka að ræða, og það ekki heldur, þótt reykvízkir þingmenn fengju sömu laun og aðrir þingmenn; ekki sízt, er þess er gætt, að ferðakostnaður þingmanna minkar, ef frv. verður að lögum í því líki, sem það liggur nú í fyrir deildinni.

En hvað það snertir, hvort hæfari menn fáist til þingsetu, ef þingfararkaup er hækkað, þá er ekki gott að fullyrða neitt um slíkt. Það getar vel verið, að það sje rjett, sem háttv. framsm. tók fram, að menn vita ekki, nema ýmsir nýtir menn sitji heima vegna þess, hve borgunin er lág. En um þetta er ekki hægt að segja neitt með vissu, og því er gagnslítið að deila um það.