13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hef skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Það hefði ef til vill verið rjettara, að jeg hefði komið fram með breytingartillögu við það ákvæði í frumvarpinu, sem olli því, að jeg skrifaði undir með fyrirvara. En jeg kunni einhvern veginn ekki við það; en jeg hef hugsað mjer, ef einhver háttv. deildarmanna ber upp brtill. í þá átt, sem fyrir mjer vakir, að styðja hana. Jeg er að öllu leyti ánægður með 2. gr. Það eru að vísu ýms svæði, sem þar eru talin, þar sem jeg er ekki kunnugur, en jeg hygg þó, að þær upphæðir, sem þar eru ákveðnar sjeu mjög sanngjarnar. En það er eitt ákvæði í 1. gr„ sem jeg er ekki allskostar ánægður með, og það er einmitt það atriði, sem háttv. þm. Skgf. mintist á. Jeg er honum að öllu leyti samþykkur. Mjer finst það ekki rjett að forminu til, að hafa tvennskonar fæðispeninga, að gera þennan mismun á þeim, sem frumv. gerir, að reykvízkir þingmenn fái 6 kr.. en aðrir þingm. 9 kr. Mjer finst það smásmuglegt að launa þeim þingmönnum lægra, sem heima eiga í Reykjavík, en öðrum. Jeg álit það ekki rjett, að allir Reykvíkingar geti setið á þingi án nokkurra verkatafa.

Hvernig á múrari, snikkari, verkstjóri, skipstjóri og ýmsir aðrir að vera á þingi sem nýtir þingmenn, án þess að sleppa atvinnu sinni? Og þó um embættismann sje að ræða, aðra en kennara, sem geta haft sumarfríið til þingsetunnar, þá má þó telja víst, að þeir þurfa að bæta við miklum skrifstofukostnaði, til þess að fylla upp í það skarð, er þingsetan hefur gjört í störf þeirra.

Jeg veit að vísu, að til eru menn, sem hafa lítið fyrir stafni á sumrum. svo sem kennararnir; en þó held jeg, að þeir mundu taka því með þökkum, að geta ljett sjer eitthvað upp um þann tímann, heldur en sitja á þingi hlaðnir störfum. Enda er það í rauninni ofætlun, að menn sjeu rígbundnir við andleg störf allan ársins hring.

Og jeg fyrir mitt leyti get ekki búizt við því, að menn, sem búsettir eru í Reykjavík, geti haft þingstörf sín í hjáverkum.

En það, sem mjer þykir allra varhugaverðast við það, að hafa laun þingmanna ójöfn, er það, að með því getur litið svo út, sem verið sje að mynda kala á milli þingmanna þeirra, sem búsettir eru í Reykjavík, og hinna, sem út á landinu búa. Og auk þess gæti það máske komið til greina, að sparsamir kjósendur notuðu sjer þetta, og kysu heldur Reykvíkinga á þing, af því að þeir yrðu ódýrari ef til vill án tillits til annars. Þess má líka geta, að ekki stendur á sama, hvar utanbæjar þingmaðurinn situr; það virðist dálítið undarlegt að t.d. þingmaður fyrir Kjósar- og Gullbringusýslu, sem sæti í Skildinganesi, skuli hafa þrem krónum hærri dagpeninga, en sá, er kynni að búa í Laugarnesi. Sama er að segja um það, ef þingmaðurinn væri búsettur á Seltjarnarnesinu; þá er hálfkynlegt, að hann skuli hafa hærri laun, en sá, sem byggi einhversstaðar innan við Eiðið.

Þetta finst mjer ekki vera rjettlátt.

Það hefur komið til orða, og jeg hefði fremur getað gengið inn á, að hafa mismuninn eittjvað lægri, t. d. að kaup hvers þingmanns væri ákveðið 7 kr. á dag, og svo eitthvað til vissra útgjalda fyrir utanbæjar þingmenn. Ein króna er að vísu lítið, en safnast, þegar saman kemur, og þetta yrði þó, um 50 kr. fyrir 8 vikur; og það eru líka peningar. Jeg hefði felt mig betur við, að þetta gjald til ýmislegra útgjalda væri ákveðið 2 kr., enda er það í beinu samræmi við 2. gr. frumvarpsins. Þetta heldur þá áfram að vera nokkurskonar drykkjupeningar, sem ættu að haldast yfir dvalartímann í Reykjavík alveg eins og á ferðunum. En bezt hefði jeg felt mig við, að fæðispeningarnir væru látnir vera 8 kr. á dag, og þess utan 2 kr. á dag til utanbæjarmanna. Eg verð að segja, þótt undarlegt sje, að svo líti út, sem töluverður skrekkur sje í sjálfum flutningsmönnum þessa frumvarps.

Því ekki að stíga sporið til fulls, og ákveða dagkaup þingmanna 10 kr., og ef menn eru hræddir við að flytja mál eins og þetta, sem er þegar jafnrökstutt, og jafn auðvelt að rökstyðja, hvað mun þá ekki vera um önnur mál?

Þá held jeg svo, að jeg hafi tekið flest fram, sem eg ætlaði að segja, málinu viðvíkjandi, og gert grein fyrir því, hversvegna jeg skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara.