13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Einar Jónsson:

Jeg skrifaði að vísu undir nefndarálitið fyrirvaralaust; en það var ekki af því, að jeg væri samþykkur öllu, er í því stendur. Jeg gat strax tekið það fram viðvíkjandi 1. gr., að jeg hefði kosið að dagpeningarnir væru jafnari. En hugsunin um sparnað rjeði meiru þar, enda er það auðvitað í sjálfu sjer rjett, að Þingmönnum utan af landi, er þingvistin dýrari til muna, en þeim, sem hjer eiga heima. Og úr því munur var gerður, vildi jeg heldur, að munurinn væri gerður með því orðalagi, sem í frv. er, heldur en eins og tillaga háttv. þingm. Strand. var.

Jeg get viðurkent það með h. þm. V.-Sk., að það sje óheppilegt, að þetta frumv. skyldi nú koma fram; einmitt á þeim tíma, sem jeg verð að álíta óhentugan. Það hefur að vísu legið í loftinu undanfarna tíma, að frv. um hækkun dagpeninga mundi þá og þegar fram koma. Því það hefur sýnt sig betur og betur, að þeir eru svo lágir, að ýmsir þingmenn hafa beðið beint fjárhagstjón af þingsetunni.

En þingmenn hafa hingað til kveinkað sjer við að koma fram með slíkt frumv., af því að það snertir þá sjálfa, þó að þeir hafi vel fundið til þess, hve rjettmætt það var. Nú var það tækifæri notað, að lög voru samþykt um það, að færa þingið aftur til sumarsins, og það gert að ástæðu til þess, að koma fram með þetta frumv. Jeg ætla nú ekki að tala neitt um það, hvort sú ástæða hafi verið rjett. En jeg vil benda á það, að sá kostnaðarauki, sem þetta frumv. hefur í för með sjer, verður ekki hærri, en svarar þeirri fjárupphæð, sem sparast við það, að þingið er flutt til sumarsins, heldur líklega miklu minni. Þegar á hag landssjóðs er litið, vega því þessi frumvörp að minsta kosti hvort á móti öðru.

Jeg hikaði fyrst við að gefa frv. þessu atkvæði mitt, og áleit óheppilegt, að leggja þennan aukakostnað á, nú á þessum tíma, ekki sízt vegna þess hvert tvísýni var á, hvort nokkur tekjuaukafrumvörp fengju framgang á þinginu. En nú er útlit fyrir, að svo verði, og þá skiftir litlu, hvort svona lagað frumvarp verður samþykt nú, eða á næstu þingum; því lengi mundi það varla bíða úr þessu.