15.08.1912
Efri deild: 25. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jósef Björnsson:

Jeg vil leyfa mjer, að fara nokkrum orðum um breyttill. þá á þingskj. 250, sem jeg og 4 háttv. þingdeildarmenn aðrir erum flutningsmenn að og snertir 1. gr. frumv.

Það sem vakti fyrir flutningsm. með br.till. var það, að ótilhlýðilegt væri, að þingm., sem hafa sama starfið á hendi, fengju ekki jafna þóknun. Oss fanst því viðkunnanlegra, að breyta þessu þannig (sbr. brtill.). að þingmenn hafi allir 8 kr. þóknun daglega, meðan þeir sitja á þingi.

Það var tekið fram af framsögum við 2. umr. málsins, að það væri mikil sanngirni í því, að gera einhvern mismun á kaupi þingm. utan Reykjavíkur og hinna, sem þar eru búsettir, og vildum við flm. þessarar br.till., ekki véfengja ástæður hans fyrir þessu. Það er líka vitanlegt, að þingmenn þeir, sem ekki eru búsettir í Rvík., hafa ýmsan kostnað, sem hinir hafa ekki, svo sem húsaleigu, þjónustu o. s. frv.

En í sambandi við þetta má geta þess, að ef um það er að ræða, að hækka kaup þingm. utan Reykjavíkur, þá er ekki nema sanngjarnt, að kaup hinna hækki líka eitthvað jafnframt. Því þótt þingmenn þeir, sem búsettir eru í Reykjavík, sjeu lausir við ýmsan kostnað, sem þingmenn utan Reykjavíkur hafa, þá má þó ekki gera ráð fyrir því, að þeir geti setið á þingi sjer að kostnaðarlausu. Því það getur verið um ýms þau störf að ræða, sem þeim er eigi mögulegt að hverfa frá, nema því að eins, að þeir fái sjer aðra menn í sinn stað til þess að annast verkið. Og eitt er það að minsta kosti, sem bakar þingm., sem búsettir eru í Reykjavík, kostnað í fult eins háum mæli og hinum, og það er kostnaður sá, sem þeir hafa sumir hverjir af að halda þingmálafundi, ef kjördæmi þeirra liggja langt í burtu, því þá má gera ráð fyrir talsverðum ferðakostnaði til þingmálafundanna.

Auðvitað kosta þingmenn utan Reykjavíkur líka talsverðu til þingmálafunda, en það þykir mjer þó líklegt að Reykvíkingurinn kosti meiru til að því, er þetta snertir, ef hann á annað borð heldur fundi með kjósendum sínum.

Að því er kostnaðarmismuninn snertir, sem hjer er farið fram á, þá er hann sama sem enginn, hvort heldur 6 og 9 kr. dagpeningar verða samþyktir eða 8 kr. fyrir alla þingmenn. Ef 1/3 þingsins er er skipaður þingm. úr Reykjavík og 2/3 þess þingmönnum utan Reykjavíkur ?: 27 þingm., þá verður daglegur kostnaður við þóknun til þingmanna 321 kr. með 9 og 6 kr. kaupinu, en sje dagþóknunin 8 kr. til allra, þá er kostnaðurinn 320 kr.

Að því, er snertir þessa 2 kr. aukaþóknun handa þingmönnum utan Reykjavíkur, sem síðari málsgreinin ræðir um, þá höfum við flutningsmennirnir litið svo á, að þetta eigi að vera þóknun til þeirra fyrir húsnæði, þjónustu og aðra þá hluti, er þeir þurfa að leggja meira út fyrir en þingmenn, sem búsettir eru í Reykjavík. Þetta er kostnaður, sem stafar af því, að þeir eru farfuglar, fjarri heimilum sínum, meðan þeir dvelja í Reykjavík, og í eðli sínu er það því ferðakostnaður. Þess vegna væri rjettara, að þetta kæmi fram á ferðakostnaðinum, þótt það komi auðvitað í sama stað niður.

Í breyttill. er ekki gert ráð fyrir, að þingmenn fái þessa aukaþóknun, nema um þann tíma, sem þeir sitja á þingi, og því kemur nokkur hluti kostnaðaraukans til baka aftur, þar sem 8 kr. í stað 9 kr. kæmu á þá dagana, sem þingmenn eru á ferðalagi til þings og frá.

Nú eru ferðadagarnir alls nær því 400 eftir því, sem ráð er fyrir gert í frumv., og við það spöruðust því jafnmargar krónur, sem gengu til 2 kr. þóknunarinnar og drægju úr henni.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál; en jeg er nefndinni þakklátur fyrir að hafa tekið svo vel, sem raun hefur á orðið, í þessa breyttill., því þótt mjer á hinn bóginn sje mál þetta í heild sinni ekkert áhugamál, þá vil jeg, að sómasamlega sje frá málinu gengið, sje þingfararkaupinu nokkuð breytt á annað borð.