15.08.1912
Efri deild: 25. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Eggerz. Jeg ætla að minnast lítið eitt á breytingartillögu á þgskj. 259; ekki svo að skilja, að hún komi við hjartaræturnar í mjer, því bæði er nú það, að jeg læt mig ekki mjög miklu skipta, hvað hár ferðakostnaður mjer er gerður, og svo er hitt, að frá Vík, sem er í suðurenda kjördæmisins, má komast langt með 190 kr. í ferðakostnað til og frá.

Gangi maður aptur út frá, að þingmaðurinn sitji á Síðunni, þá nær þessi ferðakostnaður ekki neinni átt. Háttv. flutnm. tillögunnar mun, eptir því, sem hann hefur skýrt mjer frá, hafa gert 4 daga ferð frá Síðunni og til Reykjavíkur. Svo hart fer maður varla nema þegar sækja á yfirsetukonu, en hingað til hefur ferðalag þingmanna ekki verið miðað við slíkt áframhald. Auk þess hefur háttv. flutningsm. tillögunnar gert ráð fyrir, að hestar fengjust af Síðunni til Reykjavíkur fyrir 16 kr. Þetta mun einnig alt of lágt reiknað, og hygg jeg, að jeg fari nærri því rjetta með að telja, að hestur frá Síðunni til Reykjavíkur kosti 25 kr. Jeg held, að sá ferðakostnaður, sem nefndin ætlaði þingmanninum, hafi verið sanngjarnari, og hann var miðaður við ferð austan af Síðu, sem einnig mun hafa verið ætlun háttvirts tillögumanns.

Jeg skil það, að þetta stafar alt af ókunnugleika þingmannsins. En kjördæmisins vegna, en sannarlega ekki mín vegna, varð jeg að gera athugasemd við þessa áætlun hans.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefur verið, að miða ætti ferðakostnað þingm. V.-Sk. við sjóferðir, þá held jeg, að það geti ekki komið til mála, einkum ef gert er ráð fyrir, að þingm. búi austar en í Vík. Hann yrði þá fyrst ef til vill að bíða lengi eptir skipinu með hesta sína, og ef það kæmi svo ekki, sem er æði títt, á þessari miklu brimhöfn, þá yrði hann að halda áfram landveg, en kostnaðurinn hefði vitanlega aukizt við biðina.

4. kgkj. sagði, að það væri skaðlegt og ekki sæmilegt fyrir þingið, að þingmenn hefðu svo lágt kaup. Jeg get ekki skilið, í hverju sá skaði ætti að liggja; enn erfiðara virðist mjer að skilja það, að það sje ósæmilegt, að vinna fyrir lítið kaup í þarfir ættjarðar sinnar.

Háttv. 4. kgk. tók það fram, að sumir bændur vildu ekki sitja á þingi vegna þess, hversu kaupið væri lágt, og að þeir sköðuðust á því; en engin dæmi tilfærði hann fyrir máli sínu, enda mundi það veitast örðugt, því reynslan hefur einmitt sýnt það, að þeir, sem lengi hafa á þingi setið, eru allra manna sólgnastir í það, og leggja mest kapp á að sitja þar áfram, og það mundu þeir ekki gera, ef að þeir biðu fjárhagslegt tap á því. Það mundu þá renna á þá tvær grímur. Reynslan virðist því fullkomlega styðja málstað minn. Og eitt þykist jeg viss um, að bændurnir út um land muni brosa, er þeir heyra, að þingfararkaupið er hækkað af umhyggju fyrir þeim.