20.08.1912
Efri deild: 29. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

60. mál, vatnsveita í verslunarstöðum

Steingrímur Jónsson, framsögum:

Jeg get verið stuttorður um frumv. þetta, bæði af því, að aðalástæður nefndarinnar eru teknar fram á þskj. 314, og eins af því, að mjög svo mikið áhrærandi þetta efni er tekið fram í nefndaráliti sömu nefndar við frv. til laga um vatnsveitu á Sauðárkróki, sbr. þskj. 95.

Að vísu telur nefndin það allvarhugavert, að samþ. frumv., sem, eins og þetta, nær til allra löggiltra verzlunarstaða á landinu, en þar sem báttv. Nd. samþykti frumv. þetta nærfelt í einu hljóði, og án nefndar, þá hefur nefndin eigi viljað ráða til að fella það, heldur hinsvegar breyta frumv. svo, að það yrði sem líkast vatnsveitulögum Reykjavíkur; en lög þau voru rækilega undirbúin og hafa reynzt vel, svo nefndin telur, að þau sjeu sæmileg fyrirmynd.

Um hinar einstöku breytingartill. vorar vil jeg vera fáorður.

Við álitum, að endir 2. gr., síðasta málsgreinin, sje óþörf. Nefndin lítur svo á, sem sýslunefndir fari ekki að ástæðulausu að taka fram fyrir hendur hreppsbúa í þessum efnum, enda gæti það verið, að hreppsbúar þröngvuðu um of kosti íbúa í fámennu kauptúni, þar sem vatnsveita væri nauðsynleg af sjerstökum ástæðum, t. d. vegna taugaveiki, eins og á Sauðárkrók.

Í 3. grein frumvarpsins vantaði ákvæði um heimild til að taka vatn til vatnsveitunnar í landeignum hreppsbúa, og þykir nefndinni betra, að þetta atriði sje tekið beint fram.

Eina verulega breytingartillögu ber nefndin fram, þar sem hún vill fastsetja hámark skattsins. Nefndin lítur svo á, sem löggjafarvaldið eigi að setja föst og ófrávíkjanleg takmörk fyrir því, en það eigi ekki að leggja það á vald landsstjórnarinnar eða sveitastjórnanna, hversu háan vatnsskatt megi leggja á húseigendur. Óvarfærni í þessu efni gæti orðið til þess að minka lánstraust almennings á þeim stöðum, þar sem hár vatnsskattur yrði lagður á, og jafnvel annarsstaðar líka, af ótta fyrir að hann gæti dunið yfir.

Það getur náttúrlega borið við, að hámark skattsins 6% nægi ekki til þess að greiða vexti og afborgun af fyrirtækinu ásamt árskostnaði, en nefndin lítur svo á, að því, sem þá kynni að ávanta, mætti jafna niður með aukaútsvörum, og gæti ekki stafað af því neinn voði.

Í frumvarpi vantaði einnig ákvæði um það, hvenær mætti heimta vatnsskatt af húseigendum, og áleit nefndin nauðsynlegt, að það væri tekið fram, og hefur tekið ákvæði um þetta efni eftir vatnsveitulögum Reykjavíkur. Ennfremur vantaði ákvæði um, að húseigandi væri skyldur að kosta vatnsæð inn í hús sitt, og að hve miklu leyti honum bæri að bera þann kostnað.

Yfirleitt hefur nefndin breytt og aukið frumv., til þess að það líktist sem mest vatnsveitulögum Reykjavíkur og frumv. því, er háttv. deild hefur nú afgreitt um vatnsveitu á Sauðárkróki, og ræður nefndin hinni háttv. deild til þess að samþykkja frumv, með breytingum þeim, er hún kemur fram með, og prentaðar eru á þskj. 314.

Að lyktum skal jeg geta þess, að það hefur orðið prentvilla hjer á þskj. 314 í breytingartill. nefndarinnar, semsje að 8. breyt.till. nefndarinnar er ekki við 7. gr. eins og þar stendur; sú grein er ekki til, heldur við 6. gr.