05.08.1912
Efri deild: 16. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Steingrímur Jónsson:

Nefndin í málinu: frumv. til laga um árgjald af verzlun og viðskiftum við útlönd hefur falið mjer framsögu frumv. þessa.

Eins og kunnugt er, lagði stjórnin fyrir alþing frumvarp sama efnis og frumvarp það, er hjer liggur fyrir. Þetta frumv. var lagt fyrir háttv. neðri deild, og kom þar fram í þingbyrjun áskorun frá einum þingmanni um, að frumvarpið yrði samþykt og staðfest fyrir 21. júlí, því um þær mundir byrja einmitt síldveiðar á Norðurlandi, En það varð ekki; var frumv. vísað til nefndarinnar í málinu: frumv. til laga um einkasölu steinolíu, og hefur setið þar síðan. Líklega er meiri hluti nefndarinnar á móti frumvarpinu, en hinsvegar eru öll líkindi til, að meiri hluti háttv. þingmanna í neðri deild vilji samþykkja það.

Vjer nefndarmenn erum sammála um, að það er illa farið, að frumv þetta strandi í þinginu, og höfum þess vegna viljað flýta fyrir málinu, með því að bera fram frumvarp um sama efni. Hann er þeim mun verri, drátturinn á frumv. í háttv. neðri deild, sem það var fyrirsjáanlegt, að frumv. það, er stjórnin lagði fyrir, þurfti talsverðra breytinga við. Gjaldataxti stjórnarinnar er als ekki viðunandi, að því er suma gjaldliði snertir.

Efni frumv. þessa er að leggja gjald á síldarafurðir, og er hjer ekki um neitt nýmæli að ræða, því með lögum nr. 11 frá 31 júlí 1907 er lagt 50 aura gjald á hverja síldartunnu, en það er líklega fast að 10% af verði síldarinnar.

Nú hefir atvinnan breytzt. Síldin er ekki lengur eingöngu söltuð, heldur er nú mikið af henni brætt og búin til úr henni olía, og svo úr úrganginum fóðurmjöl, fóðurkökur og áburður. Var byrjað á þessu í fyrra við Eyjafjörð og Siglufjörð, en mistókst þá alveg, og hafa þeir, er byrjuðu á því, líklega tapað, alt að ½ milj kr. En þó svo tækist illa til, hafa þeir, er með síldina fara, eigi álitið það hættulegra en svo, að líklega starfa hjer á landi á þennan hátt 4—5 fjelög. Jeg veit með vissu um 3 fjelög, og er nú verið að reisa byggingar þeirra á Siglufirði og við Eyjafjörð, og byrja þau í ár.

Það mun láta nærri, að síðan 1907 hafi síldargjaldið numið nálægt 100000 kr. á ári hverju, og munar landssjóð mikið um gjald þetta, ekki sízt nú, er hagur hans er svo slæmur. En nú er gjald þetta að hverfa að miklu leyti. Saltaða — tollaða — síldin hverfur, en í stað hennar kemur aftur síldarolía, fóðurkökur o. s. frv., en það er ótollað. Líklega má segja, að hægt sje að tolla síldarolíuna eins og lýsi samkvæmt lögum 4. nóv. 1881 um útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl., og er það þá 30 au. gjald af tunnu hverri. Jeg býst jafnvel við, að stjórnarráðsúrskurður verði kveðinn upp um þetta efni, eða hafi jafnvel verið kveðinn upp nú þegar. En þó slíkur úrskurður hafi verið kveðinn upp eða verði það, þá er frumv. þetta jafn nauðsynlegt fyrir það, því bæði er það, að úrskurður stjórnarráðsins er ekki lög, og hitt, að gjaldið er of lágt, því í hverja tunnu af síldarolíu munu fara um 12—14 tunnur af síld. Það má því ætla, að þetta skifti talsverðu fyrir landssjóð, auk þess sem hinir hlutar síldarinnar yrðu ekki skattskyldir. Með frumv. þessu mælir því ekki eingöngu hin knýjandi þörf landssjóðs, heldur er það einnig í fullu samræmi við löggjöf vora.

Þá er á það að líta, hvort gjaldið muni vera ranglátt eða ekki. Nefndin hefur leitað sjer upplýsinga um það efni, og hefur hún fengið upplýsingar frá einum kaupmanni á Akureyri, en á auk þess von á upplýsingum síðar frá öðrum.

Kaupmaður þessi hyggur, að meðalverð á tunnu af síldarolíu muni vera um 16 kr. nettó, og verður þá gjaldið um 31/8% eða að minsta kosti helmingi lægra en nú er gjaldið af síldinni. Fóðurmjölið telur hann 11 au. kílógr., og yrði skatturinn þar sem næst 32/3% fóðurkökurnar 4—5 kr., skattur um 6%, og af öðrum efnum telur hann um 20 kr. fyrir tonnið, og yrði skatturinn því um 10%. Það má vel vera, að tveir síðustu liðirnir sjeu of háir, og þeir voru að minsta kosti alt of hátt taldir í frumvarpi stjórnarinnar, en nefndin mun rannsaka það efni frekar til 2. umræðu og afla sjer nánari og meiri upplýsingar.

Var þá gengið til atkv., og var frumv. vísað til 2. umr. í einu hljóði.

2. umr. í Nd. á 18. fundi, 7. ágúst (120, 155).