07.08.1912
Efri deild: 18. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Steingrímur Jónsson:

Nefndin, sem samdi frumv. þetta, er þakklát hinni háttv. deild fyrir þær góðu undirtektir, sem frumv. þegar fjekk við 1. umræðu.

Og jeg hef litlu við að bæta það, sem jeg þá tók fram. Að vísu höfum vjer fengið skýrslur af Akureyri um verðlag á þessum afurðum, en það breytir engu. — Það má líta svo á, að áætlun nefndarinnar hafi ekki verið of há, og hundraðsgjaldið, sem jeg mintist á við 1. umr. þessa máls, verður nokkru lægra.

Að því er snertir ýmsar sjerstakar vörutegundir, þá komum við fram með brtill. við 3. og 4. lið. Gjaldið af þeim vörum, er þar eru nefndar, þótti nefndinni heldur hátt, t. d. af fóðurkökum — sama sem 5 af 100 og um 10% af áburðarefnum. — Þetta 30 aura gjald vill nefndin lækka niður í 25 aura. Og ennfremur leggur hún til, að í stað 20 aura gjaldsins komi 15 aurar. 20 aura gjaldið verður 2 kr. af tonninu, eða sama sem 10 af hundraði. En 15 auragjaldið nemur kr. 1,50 af tonni, sama sem 7 ½ af hundraði.

Og til þess ber líka að taka tillit, að þessi áburðarefni eru hjer lítt reynd.

Nefndin hefur líka álitið rjettara, að miða við 100 kg., því við það verður tolleiningin smærri.

Með frumv. þessu fæst vonandi nokkurnveginn uppbót fyrir því, sem síldartollurinn minkar.

Að öðru leyti hefur það vakað fyrir nefndinni, að hefta í engu þessa nýju atvinnugrein. Virðist okkur gjaldið ekki vera svo hátt, að afleiðingin mundi sú.

Jeg leyfi mjer ennfremur að skírskota til brjefs þess, sem nefndin fjekk, og getið var um við 1. umr. þessa máls. Jeg vona nú, að mál þetta fái góðar undirtektir hjer í deildinni, og leyfir nefndin sjer, að beiðast þeirra afbrigða frá þingsköpunum um frumv. þetta, að taka megi málið á dagsskrá á morgun, ef ráðherra leyfir, og afgreiða það sem lög frá deildinni.