23.08.1912
Efri deild: 33. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Jens Pálsson (framsögum.):

Síðan frumv. var hjer til meðferðar í háttv. deild hefur háttv. Nd. gert á því breytingar. Breytingar hennar eru þær, að tollur á síldarlýsi er lækkaður úr 50 au. niður í 30 au., og á fóðurmjöli úr 50 au. niður í 30 au.; nefndin álítur, að þessar breytingar sjeu rjettmætar og fremur til bóta. Verksmiðjur þær, er vinna að þessu, eru ungar; af því er ástæða til að vera vægur í tollalögum við þær og sjá, hvernig þeim reiðir af.

Háttv. Nd. hefur og bætt við frumv. nýrri grein, og stendur svo á því, að síðan þing kom saman og frumv. var hjer til meðferðar, hafa menn fyrir norðan ráðizt í að flytja út síldina með nýju fyrirkomulagi, öðru en hingað til hetur átt sjer stað. Á Siglufirði nyrðra er síldinni safnað saman í lestina á stóru skipi, og á síðan að flytja hana umbúðalaust til útlanda og vinna þar úr henni í verksmiðjum. Lögreglustjórinn á Siglufirði spurðist fyrir um það, hvort toll bæri að taka af síld þessari, og hefur stjórnarráðið nú úrskurðað 28. f. m., að slík síld verði ekki heimfærð undir lögin nr. 11 frá 31. júlí 1907, því að þar sje gert ráð fyrir umbúðum, og þess vegna sje ekki hægt að taka af henni toll, nema ný lagaákvæði komi til. Eins og nú hagar, væri það hið mesta ósamræmi við aðra tolla, ef síld þessi væri ekki tolluð, og er því rjett að bæta úr því með því, að samþykkja grein þessa.

Svo er og það, að ef síld þessi, sem á að fara í verksmiðjur ytra, ekki verður tolluð, þá verða verksmiðjur þær. sem nú er verið að stofna hjer á landi, mjög hart úti, þar sem allar afurðir þeirra verða tollaðar, og mjer finst, að þær eigi rjett á því, að þessi umbúðalausa útflutningssíld verði tolluð; annars gæti það dregið frá þeim.

Af þessum ástæðum hefur nefndin fallizt á, að ráða hinni háttv. deild, til að samþ. frumv., eins og það liggur fyrir, með því hún telur breytingarnar í alla staði rjettmætar.