22.07.1912
Efri deild: 6. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

26. mál, löggilding verslunarstaða

Guðjón Guðlaugsson (flutningsm).:

Það er bæði stutt frumv. og auðskilið, er hjer liggur fyrir hinni háttv. deild til umr., og ekki heldur óvenjulegt, svo að þess gerist ekki þörf, að fara nema örfáum orðum um það.

Frumv. fer fram á, að tanginn Gjögur, sem er milli Norðurfjarðar og Reykjarfjarðar í Strandasýsln, verði löggiltur verzlunarstaður. Jeg býst við, að sumum kunni að þykja löggilding þessi óþörf; þar sem ekki er nema ¼ úr mílu til næsta verzlunarstaðar. En ástæðan til, að frumv. þetta er fram komið fyrir þingið, er í fyrsta lagi sú, að meiri hluti hreppsbúa þeirra, er hjer eiga hlut að máli, hafa óskað þess. Enn er það, að verzlunarstjórinn í Norðurfirði hefur og óskað þess. Höfnin á þessum stað er góð. Jeg skal ekki segja um, hvernig hún er í rokum og stórsjóum. Ef hún skyldi reynast illa í stormum og illviðrum, er ekki annað fyrir skipin en að leita inn til Reykjarfjarðar. Og það er eitt, sem mælir með þessu frumv., að Gjögur virðist vera löggiltur verzlunarstaður af náttúrunnar hálfu. Nú þegar eru skip farin að leggja þar upp vörur; t. d. salt o. fl., og þar er ekki alllítið fiskiver. Það vantar að eins menn með nægilegu fjármagni til þess að koma þar upp álitlegri fiskistöð. Þar eru nú stundaðar fiskiveiðar á vorum, og geta verið og eru frá gamalli tíð hákarlaveiðar á vetrum. Þetta er enn eitt atriðið, er mælir með löggildingu staðarins. Skipin, sem fara þar um fjörðinn, hafa verið fús á að koma þar við og afferma þar vörur, bæði fyrir verzlunina í Norðurfirði og á Reykjarfirði, sem hafa þar útibú, að því er fiskitöku snertir. Reyndar er ekki að búast við, að þar verði sjerstök verzlun, því Reykjarfjörður og Norðurfjörður eru fyrir einn og sama hrepp, og nálega enga aðra, og þó sá hreppur hafi afurðir sem verzlunarvöru — ull, dún, lýsi, selskinn, saltfisk o. fl., meiri en flestir hreppar á landinu, þá eru þó 3 sjálfstæðar verzlanir sem stendur of mikið í því efni, heldur eru líkurnar, að verzlanirnar á Reykjarf. og Norðurfirði noti Gjögur til útibúa sinna sjer til hagnaðar. En það er samt betra, að hafa höfnina löggilta, þótt skipin komi þar nú við, því að þá hafa þau meiri skyldu til að koma þar við, en þau hafa nú, er hann er ólöggiltur, og minni ábyrgð; og hafa fiskimenn þar nyrðra sagt mjer, að skipstjórar hefðu látið í ljósi, að þeir kysu fremur, að höfnin væri löggilt. Ef einhver kynni að hafa það að mótbáru gegn þessu frumv., að svo stutt er til næsta verzlunarstaðar, þá skal jeg í því sambandi benda á og geta þess, að staðir hafa verið löggiltir, er skemmra voru frá löggiltu kauptúni en Gjögur, það er t. d. Reykjatangi í Hrútafirði. Hann er nær Borðeyri en Gjögur er Reykjafirði eða Norðurfirði. Þar sjást engin mannvirki nú, ekkert nema sandrif. En miklar líkur eru til þess um Gjögur, að það verði framfarapláss. Nú sækja þangað menn af Ísafirði og úr Steingrímsfirði og stunda þar róðra. Það er því nauðsyn á, að hægt sje að selja þar á staðnum sjómönnum það, er þeir óska og hafa þörf á.

Eg vona, að háttv. deild taki þessu máli með góðvilja og lofi því að komast heilu og höldnu hjeðan.