14.08.1912
Efri deild: 24. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

80. mál, lendingarsjóðsgjöld

Sigurður Stefánsson (flutningsm.):

Jeg hef borið þetta frv. fram samkvæmt ósk frá sýslum. og bæjarf. á Ísafirði. En jeg fjekk ekki fyr en nú fyrir fáum dögum þessi tilmæli sýslumanns, og er þetta frv. því svo seint hjer á ferðinni. Með lögum nr. 53 frá 10. nóv. 1905 er sýslunefndinni veitt heimild til þess, að ákveða lendingarsjóðsgjald. Þau lög eru til orðin samkvæmt ósk frá Ísfirðingum.

Í aðalveiðistöðinni þar vestur frá, í Bolungarvík, er afar vond lending, og er vaknaður þar fyrir nokkru mikill áhugi fyrir því, að bæta hana. Bolvíkingar notuðu sjer strax heimildina, sem gefin var með lögum þessum og lögðu 1 kr. á hlut hvern. En áhugi þeirra hefur vaxið, síðan byrjað var á lendingarbótinni. Nú hafa þeir sjeð, hve verkið er nauðsynlegt, og að hjer er veruleg þörf endurbóta. Þeim formönnum og sjómönnum, sem hjer eiga hlut að máli, er nú umhugað um, að hækka megi þetta 1 kr. gjald uppí 2 kr. á hlut. Með því móti leggja þeir eitthvað um 2000 kr. á ári til þessa nauðsynjaverks. Hjer lýsir sjer meiri áhugi á því, að mannvirki geti komizt á, en víða annarsstaðar á landinu, þar sem menn æpa um brýr og vegi og annað slíkt, en vilja lítið sem ekkert í sölurnar leggja.

En svo vilja þeir þar vestra mega leggja hundraðsgjald á skiftan afla, í stað þess að leggja 2 kr. á hlut. Í Súgandafirði er lendingarbót bráðnauðsynleg, og þar vilja þeir heldur hundraðsgjaldið, þótt það oft geti orðið meira en ákveðin krónutala á hlut. Sýnir það glögglega, hve áhugi þeirra þar er mikill á því, að bæta lendinguna. Hef jeg nú skýrt ástæðurnar fyrir því, að frv. þetta kemur hjer fram, og vænti þess, að deildin lofi því að ganga sem bráðast til neðri deildar.