24.08.1912
Efri deild: 36. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Sigurður Stefánsson:

Þessi steinolíusaga er orðin alleinkennileg hjer á þinginu, og mikið af Bakkabræðrasamþyktum eru til orðnar um mál þetta í háttv. neðri deild, þótt undarlegt sje, svo margir skynsamir menn sem þar eru.

Háttv. neðri deild hefur legið á þessu máli frá þingbyrjun, og ætlaði að hafa það enn, þar til háttv. efri deild þvingaði það fram, en svo er það var tekið á dagsskrá, er komið var að þinglokum og leita þurfti afbrigða frá þingsköpunum til þess að geta bundið enda á það, þá neitar deildin um afbrigði, og hefur slík fólska ekki þekzt fyr í sögu þingsins, og svo er hin háttv. neðri deild hafði felt frumvarp stjórnarinnar, þá ungar hún út þessu fúleggi, sem hjer er nú komið, eftir að hafa felt stjórnarfrumv. með rökstuddri dagsskrá, sem líkari er því að vera samin á Kleppi en í háttv. neðri deild. Og þetta afkvæmi sitt, frumv. það sem hjer liggur fyrir jafn ófjélegt og það er, ætlast svo háttv. neðri deild til, að við hjer í háttv. deild tökum með þökkum, og afgreiðum það með þrem umræðum á einum degi. Og mál þetta er þó svo stórt, að hver sæmilega vitiborinn maður sjer í hendi sjer, að ekki er hægt að afgreiða það svo vel sje, fyr en eftir ýtarlegar umræður og rækilegt nefndarstarf, er tæki minst 4—5 daga. Og þetta er ekki framkvæmanlegt nú vegna Bakkabræðraháttalags háttv. neðri deildar. Ef það á að vera til að efla samvinnu á milli deildanna, að þær beiti hver aðra og mál þau er þeir hafa með höndum slíkum þrælatökum og frekju, þá bið jeg hamingjuna að hjálpa þinginu.

Mjer er sama, hvað allir kjósendur landsins segja; jeg greiði ekki þessu frnmv. atkvæði nema lagað sje, og til þess er enginn tími. Jeg greiði ekki atkv. með þessum óskapnaði, þessari svívirðing, er hefur rekið hjer inn hausinn. (L H. Bjarnason hlær í neðri deildar dyrum.) Þeir háttv. þingmenn geta hlegið, sem eru potturinn og pannan að allri þessari svívirðingu, en málið alt og meðferð þess verður þeim lífs og liðnum til háborinnar skammar og svívirðingar, en sá hlær bezt, er síðast hlær. Þó að jeg vildi greiða atkvæði brtill. þeim, er hjer hafa komið fram við 2. umræðu málsins, þá sje jeg ekki, hvernig hægt væri að koma þeim að tímans vegna, og þetta stafar alt af því, að háttv. neðri deild hefur legið á málinu allan þingtímann og sýnt í allri framkomu sinni lubbalegustu framkomu, sem til er á þingi gagnvart nokkru máli. (Sigurður Eggerz: Sama var með vörutollinn.) Og önnur eins svívirðing og sú, að neita um undanþágu á þingsköpunum, er svo mikið getur legið við, sem í þessu máli, er eins dæmi hjer á þingi, að minsta kosti í öll þau ár, sem jeg hef setið hjer.

Vel getur verið, að háttv. efri deild hefði getað ráðið máli þessu til heppilegra lykta ef tíminn hefði verið lengri.

Jeg hef viljað taka þetta fram, svo það sæist skýrt og greinilega, hvernig jeg og fleiri háttv. þingmenn líta á háttalag háttv. neðri deildar, og þá ósvinnu, er ríkt hefur þar í máli þessu og enda fleirum á þessu þingi.