26.08.1912
Efri deild: 37. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Jón Jónatansson:

Jeg hef ásamt öðrum háttv. þingm. komið fram með brtill. til þess, að gera frv. aðgengilegra. Og hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, að hann telji, að ekki sje hægt að framkvæma það, eins og það liggur fyrir, ekki sízt vegna þess, hve lögunum er markaður stuttur aldur. Jeg verð að álíta, að þetta, hve lögin eiga að gilda um stuttan tíma, sje út af fyrir sig nóg til að gera frumv. að ónýtu pappírsgagni, þó samþ. verði.

Í háttv. Nd. hefur verið bent á, að æskilegt væri, að innlent hlutafjelag yrði stofnað, er tæki að sjer olíuverzlunina. Í þessu væri því að eins nokkurt vit, að slíkt fjelag gæti fengið einkasölu, en til þess væri opnuð leið, ef br.till. okkar yrði samþykt, og þá mundi vera hægt, að vinna eitthvert gagn með lögunum. Það er líka bersýnilegt, að eins og nú hagar, er betra fyrir landssjóð að komast hjá lántöku í þessu skyni, ef auðið er, og að betra er, að stjórnin geti látið einstaka menn innlenda eða innlent fjelag hafa þessa oíuverzlun á hendi, heldur en að hún geti það sjálf, — því til þess vantar allan undirbúning. Jeg vona, að háttv. deild viðurkenni, að brtill. okkar eru til verulegra bóta, og að með þeim er þó, ef þær ná fram að ganga, málið komið í það horf, að vænta má einhvers gagns af lögunum.

Það er komin hjer fram breyttill. við tillögu okkar, um að lengja tímann upp úr 3 árum í 5 ár, og er hún sjálfsagt gerð með það fyrir augum, að frv. verði betra til framkvæmda. Jeg hefði að vísu mikið fremur kosið, að stjórnin mætti ekki framselja einkasölurjettinn til lengri tíma en 3 ára eftir þessum lögum, því þetta frv. er svo lauslega úr garði gert um alt það, er slíka einkasölu snertir, en vil þó ekki gera það að ágreiningsatriði, einkum þar sem málið í heild sinni varðar svo miklu. Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um málið. Að vísu hefði verið ástæða til að ræða það ýtarlegar, en tíminn er á förum; það, sem gert verður, þarf að gerast fljótt, og er því enginn tími til málalenginga. En jeg vænti þess, að breyttill. mín verði samþykt, og að frv. fái síðan að ganga óhindrað gegn um háttv. deild.