26.08.1912
Efri deild: 37. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Sigurður Eggerz:

Jeg get ekki greitt atkvæði með breyttill. þeirri, sem hjer er komin fram frá háttv. 2. þm. Árn. o. fl., vegna þess að hún gengur í þá átt, að veita landsstjórninni heimild til að selja steinolíuverzlunina á leigu einstökum fjelögum um 3 ára tíma.

Þetta er hið eiginlega „monopol“, og við það er jeg hræddur. Hjer er ekki tími til að rekja allar þær hættur, sem af „monopólinu“ stafa. Að eins þetta vildi jeg benda á. Frjáls samkepni „regulerar“ verzlunina bezt og gerir hana áreiðanlega undir öllum venjulegum kringumstæðum hagfeldasta fyrir þá mörgu. Hin sterka krafa eiginhagsmunanna sjer fyrir því, að sem mest sje tekið tillit til þeirra mörgu, því með því móti aflar hver verzlun sjer flestra og beztra viðskiftavina.

Þó stjórnirnar sjeu allar af vilja gerðar, þá brestur þær í flestum kringumstæðum svo mikla verzlunarþekkingu, að þær geti sjeð við slungnum verzlunarfjelögum, og þó þær hefðu þekkinguna, þá er hætt við, að ekki sje hægt, að búa svo um hnútana um lengri tíma, að hinar vondu afleiðingar einokunarinnar, sem við þekkjum frá gamalli tíð, finni ekki einhverja smugu til reka höfuðið út um. Eina af ískyggilegu hliðunum við „monopolin“ tel jeg það, að með þeim myndast of náið samband á milli þings og stjórnar og auðvaldsins, en armur auðvaldsins er sterkur. Og þó engum detti í hug, að tortryggja þessa stjórn, þá er þess að gæta, að saga hverrar stjórnar er stutt, en líf þjóðanna langt, og því hættulegt að opna brautir, sem sýnilega með tímanum geta undirgrafið einn af aðalmáttarstólpum þjóðfjelagsins, verzlunarfrelsið.

Annað mál er það, að undir stjerstökum kringumstæðum gæti komið til greina, að heimila landsstjórninni, að taka sjálf í sínar hendur einstakar greinar verzlunarinnar, eins og t. d. nú stendur á með steinolíuverzlunina hjer. Þessi heimild liggur í því frumv., sem hjer liggur fyrir; og þó jeg sje engan veginn viss um, að það geti komið að gagni, ef heimsmarkaðurinn er „monopoliseraður“, þá virðist mjer þó eftir atvikum rjett, að veita stjórninni þessa heimild. (Ráðherra: Breyttill. eru framkvæmanlegar, frv. ekki).

Jeg veit það, að hæstv. ráðherra hefur haldið því fram í háttv. Nd., en jeg vona þó, að ef í nauðir rekur, þá sjái hann, að frv. er ekki eins óframkvæmanlegt og hann segir, og hef því þá trú, að hann þá notfærði það, ef í nauðirnar ræki.

Loks er það, að þótt br.till. þessar næðu að ganga fram hjer í háttv. deild, þá tel jeg víst, eftir meðferð háttv. Nd. á steinolíufrumvarpi millilandanefndarinnar, að hún felli þær, og þá yrðu þær að eins frumv. að falli, og til þess ekkert yrði gert.

Það sem aðallega er haft á móti frv., er að það gildi að eins til ársloka 1913, en jeg sje ekki, að núverandi hæstv. ráðherra þurfi að vera hræddur við þetta ákvæði. Stjórn, er hefur að baki sjer eins öflugt fylgi og þessi, þarf ekki að vera hrædd við það, að gera þessar ráðstafanir, er frumv. gerir ráð fyrir vegna tímanaumleika, því hæglega getur hún á næsta þingi fengið tímann framlengdan, ef þörf gerist.