06.08.1912
Efri deild: 17. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

15. mál, útrýming fjárkláðans

Jósef Björnsson:

Það er aðeins örlítið, sem jeg ætla að segja, því form. nefndarinnar, háttv. 5. kgk., hefur að mestu leyti svarað andmælum þeim, er nefndin hefur fengið. Jeg skal geta þess út af orðum hæstv. ráðherra, að nefndin er fús á að taka þær bendingar, sem hann gaf, til athugunar. Að öðru leyti skal jeg bæta því við gagnvart háttv. 2. kgk., að þegar hann talaði um, að verið hefði kláði í Bólstaðahlíðarhreppi á síðastliðnu vori, en fluzt þaðan norður að Uppsölum, þá vildi hann draga þá ályktun af þessu, að ekkert væri að marka skýrslur um útbreiðslu kláðans, þar eð ekki hefði kláðinn komið upp í Húnavatnssýslu austan Blöndu á síðari árum samkvæmt skýrslunum. En þessu er því að svara, að kláði hefur fundizt að undanförnu í Skagafjarðarsýslu vestan Hjeraðsvatna, en samgöngur eru miklar á fje Húnvetninga austan Blöndu og Skagfirðinga vestan Hjeraðsvatna. En svo má ennfremur geta þess, að maður sá, er fje þetta átti, hafði aðeins dvalið 1 ár fyrir vestan, og þá flutt þangað frá Sauðárkróki; og þótt aldrei nema verið hefði kláði í fje hans um vorið, þegar hann flutti vestur, þá gat það ekki komið fram í skýrslum úr Húnavatnssýslu fyr en á þessu ári, en þær skýrslur eru enn ókomnar. —