16.08.1912
Efri deild: 26. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

19. mál, verðtollur

Jens Pálsson:

Úr því svo fór, að stjórnarskráin verður ekki afgreidd frá þessu þingi, sem þó var álitið aðalmálið, sem fyrir þinginu lægi, þá verður aðalhlutverk þessa þings, að ráða á verulegan hátt fram úr fjárhagsvankvæðum landssjóðsins. Það verður talið aðalmálið sem hjer verður með höndum haft. Allar þær tillögur, sem fram hafa komið í þessa átt, fara fram á álögur á verzlun landsmanna við útlönd.

Það er kunnugt, að við hjer 3 þingm. deildarinnar bárum fram frv., sem rjettilega getur nefnzt, um alment gjald á allri verzlun og viðskiftum landsmanna við útlönd. — Í háttv. Nd. hafa líka komið fram 2 frv. um gjöld á verzlun landsmanna: nefnilega verðtollsfrumv. þetta og farmgjaldsfrumv. það, er bíður í háttv. Nd., en þau taka að eins aðra hlið viðskiftanna við útlönd, þ. e. aðflutta útlenda vöru. Samhliða hefur komið hjer fram frumv. um æði háan toll á einni vöru, sem mikil þörf er á, og mikið er flutt af hingað til landsins, kolunum.

En hvað líður nú öllum þessum málum. Nú eru 5/6 hlutar þingtímans úti, að eins ? hluti eftir af þessu dýra þingi, sem daglega kostar landið stórfje. Og ekkert af þessum frumv. er einu sinni komið í gegnum aðra deildina, nema að eins þetta frumv., sem hjer liggur fyrir nú. — Spurnin um það, og áhyggjan fyrir því, hvar þetta lendir, þar sem svona er nú komið, og hver úrslitin verða um þetta nauðsynjamál, hlýtur að taka hugi okkar þingmanna æ fastari tökum, tökum, sem verða harðari og harðari með degi hverjum. — Jeg er í engum vafa um það, að allar þessar tillögur, koma fram og eru frambornar af góðum og hreinum huga. Og jeg veit, að þingmönnum yfir höfuð er það sannarlegt brennandi áhugamál, að bæta úr þröng landssjóðsins fyrst um sinn. Því ekkert þessara frumv. er nema til bráðabirgða.

En af þessu leiðir, þar sem menn hafa lagt sig til og vandað sig eftir föngum á þessum frumv., að flutningsmönnum og fylgisflokkum þeirra þykir sín frumv. góð, og einmitt þau betri. Gamla máltækið er því að rætast hjer, að hverjum þyki sinn fugl fagur, — hver haldi fast á sínu.— En jeg er hræddur um, að hjer ætli hver að halda of lengi fast á sínu, hverjum um sig ætli að þykja sitt hið fegursta og bezta — of lengi, — þar til í óefni er komið.

Því er ekki að leyna, að meiri hluti nefndarinnar, sem hefur haft til meðferðar frumv. um árgjald af verzlun og viðskiftum við útlönd, þykir það frumv. með þeim breytingum, sem hún hefur ráðið til að á því væru gerðar, lang rjettlátasta, sanngjarnasta og í alla staði bezta frumv. þeirra fjögra, er jeg hef minst á, og vegna þessa álits og sannfæringar nefndar meiri hlutans, er honum afar sárt um, að þetta hans frv., sem er hans óskabarn, falli úr sögunni án þess að breytingartill. einu sinni komist inn í það, nje að nokkuð tillit verði til þess tekið.

Meira nje annað tala jeg ekki í þessu máli fyrir hönd meiri hluta áminstrar nefndar, heldur tala það, sem jeg hef frekar að segja fyrir minn eigin reikning. Jeg get ekki annað sagt, en að mjer sje afar sárt um þetta árgjaldsfrv., því jeg er sannfærður um, að það er langjafnaðarfylst og rjettlátast gagnvert öllum landslýð. En berandi þetta mitt óskabarn fyrir brjósti, tek jeg mjer í munn hin alkunnu orð: „Jeg stend á rjettinum, en lýt hátigninni.“ En hvað er hátignin í þessu sambandi? Hátignin er ómöguleikinn, eða með fegra orði: ómáttuleikinn til að koma frv. í gegn. Mjer er ljóst, að þetta verðtollsfrv., sem hjer er nú til 1. umr., frv., sem er svo afar óþyrmilegt gegn sjávarútvegi, sjómannastjett og kaupstaðarbúum, og það svo, að öllum hlýtur að vera það auðsætt, — þarf stórvægilegra breytinga við svo háttv. deild þyki það aðgengilegt. Jeg vona, að jeg hneyksli engan þótt jeg segi deild; jeg byggi það á því, sem fram hefur komið af hálfu deildarmanna á þingskjölum og í ræðum. Á þessu sama byggi jeg og þá skoðun, að ekki verður það til annars, en að eyða þeim dýrmæta þingtíma, að reyna að fara að bræða saman þetta frv. við árgjaldsfrv. um verzlun og viðskifti við útlönd. Og þótt nú nefndin eyddi tíma í það, að fara að bræða saman þessi frv., þá ræð jeg það af hug og umræðum manna hjer í þinginu, að óyfirstíganlegur tálmi mundi búinn þeim „bræðingi“ bæði hjer í Ed. og í sameinuðu þingi, því þangað tel jeg sjálfsagt, að bræðingur sá mundi koma, og jafn árangurslaust um dugandi tekjuauka landssjóði til handa yrði þetta þing eftir sem áður. Fyrir mjer er það því ljóst, að fyrir báðum frv., bæði þessu og árgjaldsfrumvarpinu, sem beðið hefur hjer afgreiðslu, fyrir báðum liggur skipbrot. Okkur flutningsm. frv. hjer í deildinni tekur það sannarlega sárt. En það verður hjer að koma fram, sem máltækið segir: „Að sætt er sameiginlegt skipbrot.“ Menn verða að lúta ómöguleikanum. Frv. geta ekki náð fram að ganga eins og áliðið er á þingtímann. En víst er það, að deildin vill, að fram nái að ganga dugandi tekjuaukafrv. þrátt fyrir þetta. Og eins er það víst, að eftir er í Nd. annað aðalfrumv. um tekjuauka handa landssjóðnum. Og að þeir þar hafa haldið því eftir, legg jeg svo út, að þeir hafi gert það að haldreipi, sem getur ekki komið til af öðru en að háttv. Nd. ætli sjer, að breyta því í betra hnoss, gera það að hreinasta bjargráði fyrir allan landslýð. Því sje jeg ekki ástæðu til annars, en að vona enn, að þingið nái sínu augnamiði, og bjargi fjárhag landsins til bráðabirgða. Að endingu, ef alt um þrýtur, þá er eitt varafrv. enn, kolatollsfrv.

Af þeim ástæðum, sem jeg þegar hef tekið fram, þá ber jeg hjer fram svohljóðandi rökstudda dagsskrá:

„Með því að deildin getur ekki fallizt á frv. þetta án stórvægilegra breytinga, er eigi vinst tími til á því að gera, svo áliðið sem orðið er þingtímans, þá tekur hún fyrir næsta mál á dágsskránni.“

Og leyfi jeg mjer að afhenda hana hæstv. forseta.