12.08.1912
Efri deild: 22. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

91. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ágúst Flygenring:

Jeg vildi aðeins gera stutta athugasemd. Eftir því, sem fram kom í ræðu háttv. þm. Gullbr.- og Kjósarsýslu, þá átti tilgangurinn með frumv. að vera sá, að borga uppljóstrarmönnum þeirra ómak, en þetta álít jeg ekki als kostar rjett, enda þykist jeg vita, að flm. meini ekki þetta. Tilgangurinn með frumv. er auðvitað sá, að koma upp um lögbrotsmennina. Og þótt rjettlæta megi þessa aðferð til þess, sem hjer er farið fram á vegna þess, að við eigum hjer í höggi við prakkara og lögbrjóta, þá tel jeg hana hálfgert neyðarúrræði, sem maður grípur til vegna ófullkominnar strandgæzlu; göfug er þessi aðferð ekki. — En þó nú þetta nái fram að ganga, þá hygg jeg það ekki koma að miklum notum hjer sunnanlands, því botnvörpungar eru vanir að hylja nöfn, númer og einkenni, á meðan þeir eru að veiðum í landhelgi, svo ekki sje hægt að þekkja þá með vissu. Skal og geta þess, að jeg get ekki ætlazt til, að hægt verði að dæma þá eftir framburði landsmanna, þar eð þeir hafa vanalega hvorki tæki nje kunnáttu til að ákveða nákvæmlega staðinn, sem botnvörpungurinn er á. En þeir þurfa að verða sannir að sök, til þess að sakaráburðurinn geti komið að notum. Yrðu það þá helzt síldveiðaskipin fyrir norðurlandi, sem geta komið til mála að ná í með þessu móti. Allir hinir, sem ekki hafa neina fastastöð við land, mundu sleppa eftir sem áður.