12.08.1912
Efri deild: 22. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

91. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Jónatansson:

Tilgangur þessa frumvarps, sem hjer liggur fyrir, er góður, en hitt tel jeg vafamál, hvort sá tilgangur næst, þó þetta frv. yrði samþykt. Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að jeg hef átt samtal við ráðherrann út af ágangi botnvörpunga fyrir austan, og var þar einmitt að ræða um eftirlit úr landi eða uppljóstrun landhelgisbrota, en eftir því sem hann ljet í ljósi við mig, verð eg að efast um, að frumvarp þetta komi að liði.

Þar sem kveðið hefur töluvert að skemdum af hálfu botnvörpunga fyrir austan, fór jeg þess á leit við ráðherrann, hvort unt mundi verða að láta að óskum manna um það, að varðskipið nú í sumar einhverntíma kæmi við á Stokkseyri og tæki 2—3 menn úr landi og sýndi þeim mið á landhelgislínunni þar úti fyrir. Því ef sjómenn þar vita glögt, hvar landhelgismörkin eru, ættu þeir hægara með, að koma upp landhelgisbrotum.

Ráðherra tók máli mínu vel, en sagði, að þetta mundi þó ekki geta komið að neinu liði, þar sem ekki væri hægt, að ná dómi yfir þessum lögbrjótum, nema varðskipið sjálft hremdi þá við ólöglegar veiðar. Það eina, sem unnizt gæti við það, að menn úr landi kæmu upp landhelgisbroti, væri það, að ef varðskipið tekur botnvörpung að ólöglegum veiðum, og hann fær sekt, að þá megi fá hann dæmdan í hærri sekt, ef lögbrotskærur um hið sama skip eru áður fram komnar frá mönnum úr landi.

Með þessa skýringu ráðherrans fyrir augum, virðist mjer því, að litlar líkur sjeu til þess, að svona löguð lög komi að nokkru liði.

Annars væri jeg fús á, að styðja frumvarpið, ef sjáanlegt yrði, að það kæmi að liði.