15.08.1912
Efri deild: 25. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

91. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jens Pálsson (flutningsm.):

Eins og kom fram við 1. umr. þessa máls, er aðaltilgangur frumv. þessa, að reyna að afstýra landhelgisbrotum, einkum með því, að formenn á mótorbátum og fiskibátum, verði meir á varðbergi hjer eftir, að því er þetta snertir; og þar sem botnvörpuskipin vita, að þeir veita þeim eftirtekt, og að þau þar afleiðandi ef til vill verða staðin að brotum, þá skyrrast þau fremur við að brjóta lögin. Reynslan hjer á Faxaflóa hefur sýnt þetta og sannað.

Annar tilgangur frumv., minni háttar þó, er sá, að fá meira fje inn í landssjóð, því þeim mun meira sem upp kemst af brotum botnvörpunga, þeim mun meira verður sektarfjeð.