16.08.1912
Efri deild: 26. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

101. mál, unglingaskólinn á Ísafirði

Sigurður Stefánsson (flutningsm.):

Jeg skal verða við ósk háttv. forseta, og skýra frá því, hvernig á því stendur, að frumv. þetta er svo seint fram komið.

Það var 14. þ. m., að mjer barst brjef frá skólanefnd Ísafjarðar, dagsett 9. þ. m., þar sem hún skorar á mig sem þingmann kjördæmisins, að flytja frumvarp þetta.

Eins og ef til vill háttv. þingdeildarmenn mun reka minni til, bar jeg fram á alþingi árið 1909 þingsályktunartillögu um að fá stofnaðan gagnfræðakóla á Ísafirði. Það varð þá að samkomulagi, að jeg tók þingsályktunartillöguna aftur gegn loforði nefndar þeirrar, er hafði málið til meðferðar, um að styðja að því, að unglingaskóli sá, sem þá var nýstofnaður þar, fengi sjerstakan styrk í fjárlögunum.

Um nytsemi þessa skóla þarf ekki að fara mörgum orðum. Frá öndverðu hafa Vestfirðingar ekki haft neina mentastofnun hjá sjer, og hefur það eðlilega orðið til þess, að þeir vilja fá gagnfræðaskóla á Vesturlandi, enda verða menn að viðurkenna, að sú ósk er í alla staði rjettmæt.

Þessi ósk var að vísu ekki endurtekin á síðasta þingi, ekki af því, að Vestfirðingar finni ekki til þarfar sinnar í þessu efni, heldur af því, að þeir hafa gert sjer litlar vonir um, að gagnfræðaskóli yrði stofnaður eins þröngt og verið hefur í búi landssjóðsins nú upp á síðkastið.

Meðfram af þessum ástæðum er það, að nú er óskað þeirra hlunninda, er frv. þetta fer fram á, handa unglingaskóla Ísafjarðarkaupstaðar; veita honum þetta fram yfir aðra unglingaskóla landsins.

Mjer er ekki persónulega kunnugt um það, hvernig skólinn er, en hins vegar veit jeg að við skólann hafa verið og eru ýmsir góðir kennarar, og hæglega er hægt, að hyggja sjer það, að kenslan sje svo sem vera beri, enda tel jeg það ekki nema sjálfsagt, ef skólanum verða veitt þau hlunnindi, er hjer ræðir um, að hann þá standi undir opinberri umsjón, og að stjórnarráðið semji eða staðfesti reglugerð fyrir hann. Með því móti ætti t. d. að vera hægt, að sjá um, að þaðan kæmu svo þroskaðir unglingar og vel útbúnir að þekkingu, að þeir gætu fengið inntöku í gagnfræðisskólann á Akureyri og gagnfræðisdeild hins almenna mentaskóla, án þess að ganga undir inntökupróf.

Jeg játa það, að jeg samdi frumv. í flýti. Jeg sje það nú, að viðkunnanlegra hefði verið, að þeim, sem tekið hafa fullnaðarpróf við unglingaskólann, væri einnig heimilt, að ganga próflaust inn í 2. gagnfræðadeild mentaskólans. Ísfirðingar fóru alls ekki fram á þetta, og því láðist mjer að setja það í frumv., en seinna mun jeg semja viðaukatillögu þessa efnis.

Hef jeg nú komið þessu frumv. hjer á framfæri, og legg það á vald deildarinnar, hvað hún gerir við það. Og jeg veit það, að Vestfirðingum kemur það mjög vel, ef þessi sanngjarna ósk þeirra verður tekin til greina. En úr því, sem komið er, er tíminn naumur og kemst frv. því ekki í gegnum þingið nema með afbrigðum frá þingsköpum, en jeg sje ekki annað, en hægt sje, að koma því við með svo einfalt mál sem þetta.