16.08.1912
Efri deild: 26. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

101. mál, unglingaskólinn á Ísafirði

Sigurður Stefánsson (flm.):

Það liggur í hlutarins eðli, að ekki er hægt að skuldbinda Akureyrarskólann til þess, að taka fleiri nemendur, en pláss er fyrir; og ekki heldur til þess að vísa á burt sínum eigin nemendum til þess að taka aðkomumenn í staðinn. Það kemur aldrei til greina. Jeg mun nú bera það undir hæstv. ráðh, hvort ekki megi fá frv. framgengt með reglugerðarákvæði. En jeg vona, að málið fái samt að ganga til 2. umr. Eins og jeg hef áður tekið fram, þá verður reglugjörð skólans að vera svo ákveðin og ströng, að samkvæmt henni hafi piltar frá unglingaskólanum sömu þekkingu, sem heimtuð er til inntöku í Akureyrarskóla.

En ekki er það víst, að aðsóknin aukist að mun, þótt þetta fyrirkomulag kæmist á. Tilgangurinn er, að gera Vestfirðingum hægra fyrir, og má vera, að aðsóknin vaxi eitthvað, en ekki er víst, að það nemi nokkru. En verði svo með gagnfræðaskólann framvegis, sem nú er, að hann ekki getur tekið á móti nærri því öllum, sem æskja inntöku, þá rekur að því, að veita verður fje til að stækka hann.