24.08.1912
Efri deild: 35. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Sigurður Stefánsson, framsm. minni hlutans:

Viðvíkjandi því, er háttv. frsm. meiri hlutans sagði seinast, verð jeg enn að taka það fram, að þess verður að gæta, að þær ástæður, er sýslunefndin hafði til að leggjast mót sölunni, eru nú úr sögunni, eins og jeg benti á í fyrri ræðu minni, og háttv. framsm. hefur ekki hrakið það með neinum rökum. Það verður ekki læknissetur. Lækninum hefur verið reist íbúðarhús annarstaðar. Jörðin er ekki hentugt skólasetur. Það varð háttv. framsm. að játa. Það er því ekki sýnilegt, að nein þörf sje á jörðinni til opinberra afnota.

Jeg skal geta þess, að jeg hefði ekki gerzt flutningsmaður þessa máls, ef eins hefði staðið á og 1909. Þá hefði jeg talið sjálfsagt, að taka tillit til ástæðna sýslunefndarinnar. En það gladdi mig að heyra, er háttv. 4. kgk. þm. gaf í skyn, að vel gæti verið, að till. sýslunefndarinnar yrðu aðrar en seinast, ef málinu yrði skotið til hennar á nýjan leik. Vona jeg, að þetta reynist sannmæli. Hitt er aftur sjálfsagt, að þarfa safnaðanna sje gætt. En jeg verð að benda á það, að stjórnarráðið hefur ekki bannað kaupbeiðanda að hafa bú á Presthólum. Slíkt felst ekki í því skilyrði þess, að hann yrði að sitja á Skinnastað. Stjórnarráðið varðar ekki um það, hvort hann hefur þar bú eða ekki, ef hann fullnægir þessu skilyrði, eða fær sjer kapellán, er býr á Skinnastað eða á þar heima.

Jeg átti tal við sjera Halldór á Presthólum um báðar jarðirnar, og sagði hann mjer, að Skinnastaður væri miklu hentugri fyrir geitfjár- en sauðfjárrækt; og jeg get vel sett mig inn í það, að hann, sem búinn er um langan aldur að búa á Presthólum stóru sauðfjárbúi, mundi ekki ótilneyddur vilja flytja búferlum, og það til þeirrar jarðar, sem hefur að ýmsu leyti ólík framleiðsluskilyrði. — Háttv. 4. kgk. þm. hjelt því fram, að jörðin mundi verða læknissetur mjög bráðlega. En þetta efast jeg um að sje rjett; því, að því er kunnugir menn hafa sagt mjer, mun margt vera, sem mælir á móti því, að svo verði. Eins og þessu máli nú horfir við, tel jeg rjettast, að vísa því til landsstjórnarinnar, og gjöri það því að tillögu minni.