13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Steingrímur Jónsson:

Á þinginu 1911 var fyrir þessari deild frv. sama efnis og það er nú liggur fyrir hjer. Jeg lýsti því þá yfir, að jeg væri því mótfallinn og greiddi atkv. á móti því.

Jeg hef ekki breytt skoðun minni síðan og get því síður gert það nú, þar sem jeg álít þetta frv. verra en frv. það, sem þá lá fyrir.

Fyrst og fremst tel jeg frv. ótímabært. Því það er skoðun mín, að þá fyrst sje forsvaranlegt að breyta eftirlaunakjörum ráðherra, þegar búið er að breyta stjórnarskránni. Því frv. er gert til þess, að komast á bak við fyrirmæli stjórnarskrárinnar um eftirlaun embættismanna. En svo er þess að gæta, að ekki er sanngjarnt nje ráðlegt, að afnema eftirlaun embættismanna, nema launalögin sjeu endurskoðuð, og gildir þetta um ráðherra sem aðra embættismenn.

En sjerstaklega vil jeg benda á það, að þetta frv. er óheppilegt og órjettlátt. Þar sem það fer fram á bersýnilegt misrjetti. Því þeir menn, sem embætti hafa, er þeir taka við ráðherraembætti, eða þeir, er eftirlaun hafa, þeim er það hagur að svona lög eru samþykt, en fyrir aðra, sem tækju við ráðherraembætti, væri það mikil rjettarskerðing frá því ástandi, sem nú er lögskipað, þar sem þeir mundu ekki fá meira en þessar 1.000 krónur í eftirlaun.

Jeg skal svo ekki að svo komnu fjölyrða meira um þetta mál, þar eð jeg hef gert grein fyrir skoðun minni á því á þinginu 1911.