13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Jósef Björnsson:

Jeg skal eigi fara mörgum orðum um þetta mál. Það hefur verið fyrir þingunum 1909 og 1911, að lækka ráðherraeftirlaunin, og háttv. deild er það kunnugt, að jeg hef verið því fylgjandi, að afnema eftirlaun þessi, og er því engin ástæða fyrir mig að lýsa afstöðu minni til frumvarpsins yfirleitt að öðru leyti en því, að skoðun mín er óbreytt, eins og hún var 1909 og 1911.

En hvernig sem háttv. deildarmenn líta á málið, og hvort sem þeir eru því mótfallnir eða meðmæltir, álit jeg, að rjett sje af deildinni, að taka því svo kurteislega, að skipuð verði nefnd í það, og skal jeg leyfa mjer að stinga upp á 3 manna nefnd til að íhuga málið.