22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Jósef Björnsson, (framsögum.):

Jeg finn ekki ástæðu til að bæta miklu við það, sem jeg áður hef tekið fram.

Gagnvart háttv. 3. kgk. skal jeg taka það fram, að jeg get ekki sjeð, að ástandið, sem er, sje sanngjarnara en frumv., því ráðherra, sem verið hefur embættismaður, fær nú meiri eftirlaun, en sá, sem embættislaus hefur verið. Á þessu verður engin breyting. Hafi mjer vafizt tunga um tönn, til varnar málinu, þá mætti engu síður snúa þessu til þeirra, sem móti frumv. mæla.

Út af því, sem háttv. 4. kgk. tók fram, að þetta frumv. væri nokkurs konar refsing á þá menn, sem ekki hefðu verið í embættum, verð jeg að geta þess, að jeg fæ ekki sjeð, að sú staðhæfing sje á rökum byggð. Eftirlaunin eru lækkuð; öðru er ekki raskað í núverandi ástandi. En mín skoðun er enn sú, sem jeg áður hef haldið fram hjer í þessari háttv. deild bæði 1909 og 1911, að bezt og rjettlátast væri, að öll eftirlaun væru gersamlega afnumin og þá ekki sízt ráðherraeftirlaunin.