22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Jósef Björnsson framsm:

Jeg þarf ekki að vera fjölorður um frumv. þetta. Það má heita gamall kunningi hjer í þessari háttv. deild, með því að frumv. líks eðlis hafa legið fyrir þingunum 1909 og 1911; nefnilega um að lækka eftirlaun ráðherra.

Þetta frumv. hefur verið borið fram í háttv. Nd. af þm. Reykvíkinga, og nokkrum þingm. öðrum. Við meðferð málsins hefur ekki verið gerð nema lítil breyting á frumv. Nefndin, sem þar hafði málið til meðferðar, bætti við 1. gr. síðustu málsgreininni. Að því, er þetta mál snertir, má taka það fram, að það var þegar, er ráðherradæmið komst á, ágreiningur um, hvort ráðherra skyldi hafa nokkur eftirlaun, eða ekki. Þá varð þó ofaná, að ætla ráðherra allrífleg eftirlaun. Síðan hafa menn viljað afnema þau eða lækka að miklum mun. Gegn afnámi þeirra telja margir, að stjórnarskráin standi, svo ekki geti verið um annað en lækkun að ræða.

Nefndin, sem þessi háttv. deild setti í málið, varð ekki á eitt sátt eins og nefndarálitið sýnir.

Einn nefndarmaðurinn (Á. F.) vill láta fella frumv., og telur rjett, að sjeu eftirlaun ráðherra lækkuð, þá sjeu launakjör hans jafnframt athuguð, og sjerstaklega, hvort risnufjeð sje ekki alt of lítið.

Það skal nú játað, að væri svo, að launin álitust svo lág, að ekki væri hægt að búast við, að ráðherra gæti neinu safnað til síðari tíma, þá væri þetta mótmæli gegn því, að afnema eftirlaunin eða lækka þau.

En jeg verð nú fyrir mitt leyti að lýsa yfir því, að jeg álít, að laun ráðherra sjeu svo sæmileg, að ekki sje þessvegna neitt á móti, að lækka eftirlaunin frá því, sem nú er. Jeg skal geta þess, að 1. gr. frv. er að efni til mikið til samhljóða frumv. því, sem var afgreitt hjer í deildinni í fyrra. Í því var ákveðið, að ef ráðherra hefði af fyrra embætti rjett til eftirlauna, þá skyldi hann líka njóta þeirra eftirlauna. — Þetta ákvæði feldi háttv. Nd. þá, en nú hefur hún haldið þessu ákvæði. Þá vil jeg geta þess, að 3 manna nefnd sú, sem þessi háttv. deild skipaði til að athuga málið, hefur verið sammála um, að frumv. væri óviðfeldið að orðalagi og sjerstaklega niðurlag 1. gr. Að öðru leyti hafa nefndarmenn ekki orðið samferða.

Háttv. 3. kgk. þm. vill láta fella frumv., bæði vegna efnis og orðalags. Annar nefndarmanna, formaðurinn, fann mest að því, hvað orðalagið væri óljóst, og vill því ráða deildinni til þess, að gera breytingar á því, að því er orðalagið snertir, en þriðji nefndarmaðurinn, jeg sjálfur, vill ráða hinni háttv. deild til þess, að samþ. frumv. óbreytt, jafnvel þó jeg sje ekki sem ánægðastur með orðalag þess. Að jeg mæli með því óbreyttu og gegn brtill., kemur af því, að jeg tel augljóst, að verði því breytt hjer, þá muni það verða óútrætt eða falla, og það vil jeg ekki. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni; mæli með því, að háttv. deild samþykki það óbreytt.