31.07.1912
Efri deild: 13. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

20. mál, vatnsveita á Sauðárkróki

Steingrímur Jónsson (framsögum.):

Þess var getið í gær á fundi, að útbýtt hefði verið misprentuðu skjali í þessu máli; er misprentunin í því fólgin, að ein breytingartillagan hefur fallið burtu. Vil jeg biðja þingmenn, að eyðileggja þetta skjal og hafa hið rjetta, sem nú er útbýtt.

Nefndarálitið ber það með sjer, að nefndin vill láta samþykkja frumvarpið, þó með allmiklum breytingum. Að vísu er málið lítið undirbúið, og auk þess virðist nefndinni, að betur ætti við, að stjórnin undirbyggi frumvörp þessu lík eða um þetta efni.

En þar sem nefndin hefur fengið upplýsingar um, að vatnsból eru bæði ónóg og ill á Sauðárkróki, og telja má fullsannað, að þetta hafi orðið til þess, að megn taugaveiki hafi orðið landlæg í kauptúninu og síðan breiðzt út um nágrannasveitirnar, vill nefndin leggja til, að háttvirt deild samþykki frumvarpið. Því að mjög brýna nauðsyn ber til, að úr þessum vandræðum sje bætt, enda hefur hjeraðslæknirinn á Sauðárkróki gerzt hvatamaður að því, að komið væri upp vatnsveitu, og er verkið þegar komið svo langt á leið, að vatn er nú komið í öll helztu húsin. Hefur landlæknir, sem fyrir fáum dögum skoðaði vatnsveituna, skýrt mjer frá, að hún sje í bezta lagi og vatnið ágætt. Nefndin lítur svo á, að þetta hafi verið rösklega gert af Sauðárkróksbúum, og að löggjafarvaldið eigi því að veita þeim nauðsynlegan stuðning. Ræður hún því háttv. deild til, að samþykkja frumvarpið með breytingum, er geri það sem mest samhljóða lögum nr. 84, 22. nóv. 1907 um vatnsveitu í Reykjavík. Bæjarstjórn Reykjavíkur samdi framvarpið eftir útlendri fyrirmynd, og hafa lögin gefizt mjög vel.

Um breytingartillögur nefndarinnar get jeg verið stuttorður.

Við höfum breytt orðinu kaupstaður í kauptún, því það er rjettara. Önnur breytingartillaga vor er byggð á því, að það sje óþarft, að þetta ákvæði standi í lögunum, þar eð vatnsveitunni er tryggt nægilegt vatn, en hinsvegar hugsanlegt, að þetta ákvæði gæti gert einhverjum illa vært á lóð sinni.

Nefndin lítur einnig svo á, að það sje ekki einungis óþarft, heldur óhæfilegt, að leggja bann fyrir not annars vatns. Það virðist vera nóg, að gefa hreppsnefnd heimild til að leggja á vatnsskatt, og leggjum við því til að fella burtu þessi orð, í samræmi við vatnsveitulög Reykjavíkur.

Eptir frv. er skattálögurjetturinn ótakmarkaður eptir þörfum vatnsveitunnar. Það virðist þó ekki rjett, að leyfa hreppsnefndinni að leggja eins háan skatt á og henni virðist, og gæti það leitt til þess, að fasteignir lækkuðu í verði. Það verður því að setja takmark fyrir hámarkinu eins og gert er í vatnsveitulögum Reykjavíkur; telur nefndin rjett, að hafa það hið sama og þar, nfl. 5 pro mille. —

Áætlað er, að vatnsveitan kosti 14.000 kr., og er full vissa fyrir því, að kostnaðurinn fer ekki langt fram úr áætluninni. Líklega ekki nema svo sem nemur afföllum, 61/2°/0, á 14.000 kr. veðdeildarláni hreppsins. Verður þá kostnaðurinn tæpar 15.000 kr.

5% ársvextir af þessari upphæð eru 750 kr. Húsaskattsvirðingar eru um 200 þús. kr., nokkuð hækkandi að líkindum á næstu árum. Skatturinn verður ef til vill ekki fullkomlega nægilegur fyrst um sinn. En það, sem ávantar, verður svo lítið, að því má vel jafna á hreppsbúa með auka-útsvörim. Ræður því nefndin deildinni til, að samþykkja þetta hámark fyrir skattálögunni.

Samkv. frumvarpinu á vatnsskatturinn að hafa forgöngurjett fyrir öllum öðrum kvöðum á húseignunum. Þetta álítur nefndin óþarft. Nóg að veita lögtaksrjett.

Þá ber nefndin fram nokkrar viðaukatillögur til þess að gera frumvarpið fullkomnara. Þannig ætlumst vjer til, að baðhús, verksmiðjur og aðrir, sem brúka meira vatn en til venjulegra heimilisþarfa, greiði aukagjald. Einnig er það sjálfsagt, að skip, sem taka vatn í vatnsleiðslunni, greiði hreppnum, en ekki einstökum mönnum, gjald fyrir það.

Í frumvarpið vanta ákvæði um, að hreppsnefndin skuli leggja vatnsæðar, svo að hver húseigandi nái til þeirra. Er þetta skilyrði fyrir því, að lagður verði vatnsskattur á húseign. Er þetta ákvæði tekið úr Reykjavíkurlögunum og einnig ákvæði 5. gr. um, að hreppsnefndin hafi rjett til, að löggilda menn til þess að leggja vatnsæðar inn í húsin. Álítur nefndin, að löggilding sje nauðsynleg til að tryggja það, að vel sje gengið frá verkinu.

Ákvæðið í 6. grein telur nefndin alveg nauðsynlegt til að girða fyrir trassaskap og skemmdir á vatnsæðum; loks er 7. gr. með ákvæði um hegningu fyrir skemmdir á vatnsæðum bæjarins; er það samhljóða ákvæði í vatnsveitulögum Reykjavíkur. Verði því frumvarp þetta samþykkt með áorðnum breytingum, fer það í mjög líka átt og áðurgreind vatnsveitulög höfuðstaðarins, og hættan fyrir fjárhag hreppsins er engin, sem jeg tel mest um vert. Að svo mæltu, ætla jeg ekki að fjöyrða meira um frumvarpið.