22.07.1912
Efri deild: 6. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

33. mál, skipun læknishéraða

Guðjón Guðlaugsson (flutnm.):

Jeg skal játa það, að mjer er ekki kunnugt um fólksfjölda í þeim hjeruðum, er hjer ræðir um, en það getur naumast verið rjett, er háttv. þm. Húnv. sagði um það efni, og það nær ekki neinni átt, að jafna því við yfirsetukonuumdæmi. Í Bæjarhreppi einum eru 400 íbúar. En jeg játa það, að hjeraðið er alt of lítið, að alt of fáir íbúar verða í því. Jeg er ekki búinn við því, að koma hjer fram með skýrslur um vegalengdir í þessu læknishjeraði, sem jeg legg til að sje stofnað, en jeg vona, að jeg geti sannað það í nefndinni, að læknirinn á Blönduósi þarf aldrei að fara eins langt, eins og þegar Miðfjarðarlæknirinn er sóttur vestur að Skálholtsvík. Það verður að gá að því, að það er ekki hægt fyrir þá, sem búa vestan Hrútafjarðar, að fara yfir fjörðinn nema með því að skilja eftir sína hesta og fá aðra nýja að austanverðu, og er það bæði tafsamt og dýrt. Verður því að telja landveginn kringum fjörð aðalleiðina til Hvammstanga.

Annars vil jeg og benda á það, að Borðeyri er að ýmsu leyti hentugt læknissetur. Það er allálitlegt kauptún, sem er miðdepill stórs svæðis, þar sem margir ferðamenn koma. Margir, sem eiga leið með Hrútafirði að austanverðu, láta ferja sig yfir að Borðeyri. Þá má og minna á það, að þar er sími.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um þetta mál nú. En það er nú ekki ástæða til þess fyrir Húnvetninga eða þingmenn þeirra, að amast við þessu frumvarpi. Það væri öðru máli að gegna, ef farið væri fram á það, að taka frá þeim Hvammstangalækninn, sem óneitanlega væri hið eina rétta í þessu efni, en frumv. ætlast ekki til þess, að minsta kosti eins og það er nú.