26.07.1912
Efri deild: 9. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

44. mál, varadómarar í landsyfirréttinum

Steingrímur Jónsson, (flutningsm.):

Það er í samráði við einn háttv. þingm. í Nd., að jeg ber fram frv. þetta.

Hinn konunglegi landsyfirrjettur er æðstur dómstóll hjer á landi. Og jeg vona, að allir óski þess, að hann verði sem fyrst æðsti dómstóll í öllum vorum málum. Og vænti jeg þess, að allir vilji stuðla að auknum veg og virðingu þessa dómstóls.

Nú er landsyfirrjetturinn fremur fáliðaður, og þurfa allir dómarar að vera í sæti sínu, til þess að dómur verði uppkveðinn.

En nú getur vitanlega út af þessu borið — dómari forfallast. Afleiðingin af því er sú, að skipa þarf oft setudómara. Er þá svo fyrir mælt, sbr. tilsk. 11. júlí 1800, að landsstjórnin skuli, er slíkt ber að höndum, skipa dómara í stað þess, sem úr gengur.

Tilgangur þessa frv. er sá, að koma því fyrirkomulagi á, að skipaðir verði í landsyfirrjettinn fastir varadómarar. Fyrir þessu er að minsta kosti eitt fordæmi (hæstirjettur í Kaupmannahöfn). En þó er þar öðru máli að gegna; dómarar t. d. miklu fleiri, og 4 fleiri en þurfa að sitja dóminn í hverju einstöku máli. Jeg vona, að menn viðurkenni, að þetta frv. sje á fullum rökum bygt; og viðurkenni jafnframt, að það miði til þess að tryggja, efla og auka veg og virðing hins íslenzka landsyfirdóms. Menn getur vitanlega greint á um, á hvern hátt þessu skuli hagað. En jeg gat ekki fundið annað heppilegra ráð, en það, sem í frv. stendur, sem sje að taka prófessorana við lagadeild háskólans fyrir varadómara; þá mennina, sem kenna íslenzkum námsmönnum lögspeki og hljóta að öllum jafnaði að vera beztir til þessa starfa fallnir.

Það geta auðvitað verið skiftar skoðanir um ýms atriði, svo sem um þóknun til varadómaranna fyrir störf þeirra.

En jeg vænti þess fastlega, að háttv. deild taki máli þessu vel, og vil jeg gera það að tillögu minni, að frumvarpinu verði vísað til 3 manna nefndar, að lokinni þessari umræðu.