27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

48. mál, árgjald af verslun

Jens Pálsson (flm.):

Jeg skal vera stuttorður til andsvara 2. þm. Skagf.

Aðalefni ræðu hans var það, að hann taldi, að landbúnaðurinn yrði hafður útundan, ef frumv. yrði samþykt óbreytt.

Til þess, að svara þessu rækilega, þyrfti að fara fram útreikningur á einstökum liðum í frumv. En þar eð það getur ekki samrýmzt þessari umr., að fara út í einstaka liði, skal jeg leiða það hjá mjer.

En hins vegar bjóst jeg við þessari; öldu úr átt sveitabænda, sem jeg elska og virði. En hjer virðist mjer brydda á hinni svokölluðu Agrarstefnu, er lætur á sjer bera, þegar alsherjarmálum vorum er hreyft. Að sögn mundi sú stefna hljóta fylgi, ef sambandsmálinu og stjórnarskrármálinu yrði ráðið til lykta. Jeg býst og við því, að stjettirnar og atvinnuvegirnir mundu þá toga í sinn skækilinn hver.

En komi það í ljós, að vjer flutnm. höfum tekið of harðlega á landbúnaðinum, enda þótt vjer vildum gæta jafnaðarins, þori jeg að lýsa því yfir á vegum okkar allra — því mjer er kunnugt um hugarfar samflutnm. minna —, að vjer erum fúsir á að lina þau handtök, og ekkert fúsara, er vjer sannfærumst um þetta, en að láta undan síga og kannast við það, að einhverjir kunni að sjá glöggvara en vjer.