27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

48. mál, árgjald af verslun

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg get ekki verið á sama máli að því, er snertir meðferð málsins. Jeg lít svo á, að alhægt sje, að tala um hverja einstaka grein frumv. lauslega og gefa með því nauðsynlegar bendingar, og það því fremur þegar um það er að ræða, að kjósa nefnd í málið.

Það er eins með mig og 2. þm. Árn. og Skagf., að jeg fæ eigi betur sjeð, en talsvert misrjetti komi fram í þessu frumv., sjerstaklega hvað landbúnaðinn snertir.

En þó er það ekki aðalatriðið, sem jeg hef á móti þessu frumv. Því jeg vil aðeins leggja skatt á aðra hliðina og er á móti því, að lagt sje á útflutta vöru. Það hefur víst engum tekizt, að mæla bót útflutningsgjaldi af fiski og lýsi, enda er óviðfeldið, að leggja slík gjöld á eða með öðrum orðum sekt fyrir það, að menn framleiða mikið.

Vitanlega væri þá eftir þessu principi rjettast, að afnema útflutningsgjald af fiski og lýsi, enda þótt jeg gjöri nú samt ekki þetta að tillögu minni.

Jeg lít ávalt svo á, að nýbreytni í skattalöggjöf sje viðsjárverð og til ógæfu; og hinsvegar álít jeg líka, að sjávarútgerðarmennirnir, sem að minni hyggju standa vel að vígi, sjeu farnir að venjast þessu

Hvað misrjettið snertir, þá held jeg, að engum gæti dulizt það, hvílíkur skattur það yrði, ef lögð yrði t. d. 1 kr. og 50 au. á eina kjöttunnu. Slíkt yrði bersýnilegt misrjetti. Því þessi vara má ekkert missa og þyrfti heldur að fá aðhlynningu úr landssjóði eins og t. d. smjörið.

Hvað ullina snertir, má segja eitthvað líkt.

Smjörið þyldi það auðvitað bezt, að á það væri lagt. En það þætti mjer skifta í tvö horn og undarlegt mjög, að veita stórfje til smjörbúa og leggja svó skatt á smjörið. Væri þá líklegt, að sá styrkur hyrfi.

Jeg álít því, að ýmislegt sje að athuga við þetta frumv., og finst mjer það óheppileg og órjettlát grundvallarregla, að auka skatta á útfluttri vöru.

Þá skal jeg minnast á ýmsar aðrar afurðir, sem heyra undir lægra gjald, svo sem dúnn, sellýsi o. fl.

Öllu þessu er í frumv. ætlað lægragjald, en afurðum sveitanna. Og þó er sveitabóndinn ávalt önnum kafinn, jafnt alla tíma ársins, vegna sinnar framleiðslu, og samt á að leggja hærra útflutningsgjald á hans dýrkeyptu afurðir. Hinsvegar getur selveiðamaðurinn veitt 200—300 seli á hálfsmánaðartíma án mikillar fyrirhafnar, og er þó lægra útflutningsgjald af þessum afurðum.

Í sambandi við það, að sumir menn hafa engar afurðir, hvorki af landi nje sjó, en hafa einungis daglaunaatvinnu, kemur fram misrjetti við það, að láta aðflutningsgjaldið vera lágt, en setja útflutningsgjald á alt nema það, sem þeir hafa, sem eiga peninga. Því að þeir menn, sem lifa af peningum sínum, eru þannig leystir undan hálfum skatti, þar sem þeir sleppa við skattinn sem framleiðslugjald.

Og áreiðanlegt er, að eitthvað líkt getur komið fyrir að því er snertir sjávarútveg. Því til eru þó þeir sjómenn hjer á landi, er halda út botnvörpungum. Það er líklegt, að þeir geti oft farið með fisk til útlanda án þess að gjalda útflutningsgjald af honum, og þessum mönnum yrði þannig hlíft, og þannig kemur þar þá fram misrjetti, sem ætti að afnemast með því, að leggja á aðra hliðina.