27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

48. mál, árgjald af verslun

Jens Pálsson, (flutningsm.):

Hinum háttv. 1. þm. Húnv. þótti sanngjarnt, að gjaldið væri að eins lagt á aðfluttar vörur, en taldi hins vegar, að ef líka yrði lagt gjald á útfluttar vörur, þá yrði það megn ósanngirni fyrir landbúnaðinn. En þetta er ekki rjett, þegar gætt er að því, hvað sjávarútgerðarmaðurinn er nauðbeygður til þess að kaupa, til að geta haldið úti útgerð sinni. Jeg hef hins vegar sjeð frumv., sem lagt hefur verið fyrir þingið, sem er svo nærgöngult við sjávar- eða fiskiatvinnuveginn, að það gæti orðið honum til stórhnekkis, og er því beinlínis háskalegt.

Í útreikningi hins háttv. sama þm. skildi jeg ekkert, þar sem hann taldi gjaldið 70 af þúsundi, er hjer í frv. er það 20 af þúsundi. Hinn háttv. þm. hækkaði gjaldið svo gífurlega með álagningu kaupmanna, en sú áætlun er ekki rjett hjá honum, því kaupmenn hafa enga ástæðu til þess að hækka gjaldið, þar sem þeim er eigi ætlað að greiða það, fyr en eftir á, er varan er seld; alt öðru máli væri að gegna, ef hann væri skyldur að greiða árgjaldið fyrirfram, auk þess er hinn háttv. þm. hefur eigi gætt samkepninnar.

Kaupstaðirnir hjer á landi hafa aukizt mjög síðari ár. Reykjavík hefur nú um 12.000 íbúa, Akureyri og Ísafjörður yfir 2.000 hvor, Hafnarfjörður 1.500, Seyðisfjörður og Eyrarbakki 800 hvor o. s. frv., og allir þessir kaupstaðir eru markaðir fyrir landbúnaðarafurðir, Reykvíkingar þurfa mikið af kjöti og smjeri, og á þetta er ekkert lagt. Ætli það jafnist ekki upp móts við það, sem undan fjelli gjaldinu hjá botnverpungunum íslenzku.

Jeg átti upphaflega hugmyndina að því, að smjörbúin fengu verðlaun, og jeg skammast mín eigi fyrir það, en jeg finn hins vegar enga ástæðu til þess, að styrkurinn haldi altaf áfram, eða að neitt ósamræmi sje, þótt útflutningsgjald (árgjald) sje tekið af því. Hitt eru verðlaun, svo þau geti þroskazt og elfzt betur á unga aldri.