27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

48. mál, árgjald af verslun

Jens Pálsson, (flutningsm.):

Margt hef jeg að athuga við það, er háttv. þm. Strand. sagði nú. Hann sagði, að rangt væri að telja kaupstaðafólk sjerstakan flokk í þjóðfjelaginu, af því að margt af því færi í kaupavinnu. Með því móti aðstoðar það landbúnaðinn, beint styður hann, en er sjerstakur flokkur eftir sem áður, og rangt er það, sem hann hjelt fram, að það fyrir þessa sök lifði á landbúnaði. Það er rjett, að allmargt fólk úr kaupstöðum og sjávarþorpum fer í kaupavinnu upp í sveitir á sumrum. En hann gætti ekki þess, hinn háttv. þm., og þó er það oss öllum vitanlegt, að þessu kaupafólki eru oft og einatt greidd verkalaun sín í landvöru, t. d. smjöri, ullu og skurðarfje.

Þá var og annað atriði í ræðu háttv. þm. Strand., er jeg vildi andmæla. Hann hjelt því fram, að verð á íslenzkum vörum innanlands færi eftir verði á þeim utanlands. Ef t. d. íslenzkt kjöt lækki í verði á markaðunum ytra, verði afleiðingin sú, að seljendur kjötsins fái ekki eins mikið fyrir það hjer innanlands. Það má auðvitað varpa slíku fram, en þetta verður ekki staðfest með reynslunni nje sannað af reynslunni. Verð á íslenzkri vöru hoppar upp og niður á árinu, t. d. verð á smjöri, eggjum og kjöti, og það fer eftir því, hve mikið er til af henni á innlenda markaðinum í það og það sinn, en ekki eftir því, hve mikið fæst fyrir hana í útlöndum á þeim sama tíma. Mjer er vel kunnugt um það, að verð á íslenzku smjöri veltur á ýmsu hjer í Reykjavík, án nokkurs tillits til þess, hve mikið fæst fyrir það í útlöndum. Eins er um kjöt hjer í Reykjavík; sumarverðið á því, 50—30 aurar, fer ekkert eftir útlenda markaðinum, og haustverð varla heldur; það er ávalt í hærra verði hjer, en útlenda markaðinum svari.