10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

71. mál, kolatollur

Sigurður Eggerz, (flutningsmaður):

Frumv. það, sem hjer liggur fyrir, er komið fram vegna fjármálahorfanna í þinginu.

Allir eru sammála um tekjuþörfina.

Mörg frv. á ferðinni til að bæta úr henni, en þau fara hægt, sum fyrst nýlega komin úr nefndum í háttv, Nd., og þó að eins eftir 14 dagar af þingtímanum.

Þetta er í sjálfu sjer athugavert, en ískyggilegast er, að þessi frv. ganga inn á nýjar brautir í tollmálunum.

Meginreglan í þeim öllum, sem máli skifta, er að leggja toll á allar aðfluttar vörur til landsins, og það frv., sem lengst fer, frv. það, sem er á ferðinni í þessari háttv. deild, gerir einnig ráð fyrir tollálagningu á allar útfluttar vörur.

Þessi stefna er alveg ný; ekki einungis hjer á landi, heldur samkv. því, sem tollvitringar segja mjer, einnig annarstaðar í Evrópu.

En á þessum nýju tollbrautum eru mjög miklir annmarkar.

Í fyrsta lagi sá annmarkinn, sem öllum mun vaxa í augum, að auka þyrfti tolleftirlitið að miklum mun. Sýnilega óhjákvæmilegt, að allir lögreglustjórar á landinu fengju skrifstofukostnað sinn greiddan úr landssjóði, sem aukast mundi að mun, og auk þess nauðsynlegt, að launa umboðsmönnum þeirra.

Annar annmarkinn á þessum frumv., eða á þeim „princípum“, sem þau eru bygð á, er sá, að löggjafarvaldið, sem hingað til hefur ákveðið, með hvaða tollum landsmönnum skyldi íþyngt, leggur nú þetta vald í hendur kaupmanna, því fyrirsjáanlegt er, að þeir mundu aðallega leggja tollana á þær vörur, sem auðseldastar eru og vissast, að fá tollana inn fyrir, en það mundi aðallega verða nauðsynjavörurnar, sem allir þurfa að fá.

Að öðru leyti er það ekki meining mín, að uppkveða fyrir fram neinn áfellisdóm yfir þessum nýju tollbrautum. Að eins vildi jeg benda á, að annmarkarnir eru margir, og að stefnur þær, sem liggja hjer í loftinu, hafa enn ekki fengið byr undir vængina, og brautirnar virðast svo hálar, að óvíst er, að þingið á þeim stutta tíma, sem eftir er, sjái sjer fært. að gagnskoða svo þessar nýju leiðir, að það treystist til að leggja út á þær.

Í þessu sambandi mætti og minna á, að milliþinganefndin í tollmálunum taldi þessar tollleiðir hreinustu fljótaskriftaleiðir.

Að öllu þessu athuguðu, hefur mjer og meðflutningsm. mínum þótt heppilegast, að halda sjer inni á gömlu tollbrautinni, með fáum tollstofnum, sem ekki þurfa aukið tolleftirlit. Með frumv. því, sem hjer liggur fyrir, er bætt við einum tollstofni, kolunum, og sá tollstofn er þannig vaxinn, að auðsætt er, að innheimta gjaldsins verður mjög einföld. Aðalspurningin er því; er þessi toll að öðru leyti eðlilegur. Því verður nú ekki neitað, að hjer er um nauðsynjavöru að ræða, en beri maður þetta frv. saman við þau önnur frv., sem á leiðinni eru, getur það í sjálfu sjer ekki skoðazt sem ástæða gegn kolatollinum, því hin frv. leggja toll á allar nauðsynjavörur; jafnvel matvaran, sem hingað til hefur verið skoðuð friðhelg, er ekki undanskilin, og frv. það, sem hjer er á ferðinni í háttv. Ed., leggur toll á alla framleiðsluna. En kemur þá tollur þessi ekki sjerstaklega ranglátlega niður, kemur hann ekki eingöngu á sjávarhliðina? Ekki verður það sagt með rjettu, því nú eru kolakaup óðum að vaxa hjá bændum. Og eftir því, sem menningin vex, má telja víst, að menn uni því ekki lengur, að búa allan veturinn í köldum húsum, en áburðurinn hins vegar of dýr til að brenna honum. Aðalatriðið í þessu máli verður, að útlendingar bera svo mikið af þessum tolli, hvað mikið, er ekki auðvelt að segja, en að líkindum verður það meira, en helmingur alls tollsins. Að öðru leyti kemur tollurinn mest niður á botnvörpuútgerðinni, en hún mun nú talin með arðvænlegustu atvinnuvegum landsins, og svo vitanlega mikið niður á efnamönnum sem hafa ráð á að nota hitann. Nú, fátæku mennirnir í sjávarþorpunum fara því miður heldur ekki varhluta af tollinum. En beri maður hluttöku þeirra í þessum tolli saman við byrðina af faktúrugjaldi eða verzlunargjaldi, þá er það auðsætt, að þeir verða langt um þyngra úti af síðast nefndum tollum, og þar einmitt kemur ein af hættunum við, að leggja toll á allar aðfluttar vörur. Sjávarhliðin og sjerstaklega þeir fátækari, sem alt verða að fá úr búðunum, verða eðlilega lang þyngst úti vegna þessara almennu tollálaga.

Þó kolatollurinn kunni að þykja harðleikinn, þá kemur hann þó óneitanlega mest á útlendinga og efnamenn. Vitanlega fara fátæklingarnir í sjávarþorpunum heldur ekki varhluta af honum, en allir tollar verða alt af viðkvæmir og sárir fyrir fátæklingana, og yfir höfuð verða tollarnir aldrei sólskinsblettir í lífi þjóðanna. Á einhvern hátt verður að leysa fjármálahnútinn, og jeg hygg, að einfaldasta lausnin liggi í þessu frv. Tekjuauki sá, sem það mundi veita landssjóði, verður aldrei minni en 160 þúsundir á ári, en öll líkindi eru til, að hann yrði meiri, því kolabrúkun eykst með ári hverju, og kunnugir menn fullyrða, að síðasta ár hafi verið innflutt 100 þúsund tonn af kolum eða meira, og yrði þá tollurinn 200 þúsund krónur á ári. Færi nú aftur svo, að tollur þessi reyndist harðleikinn í garð sjávarútvegsins, treysti jeg rjettlæti þingsins til þess að ívilna honum þá aftur á einhvern hátt.