10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

71. mál, kolatollur

Steingrímur Jónsson:

Það var að eins örstutt athugasemd.

Það var með öllu óþarfi af háttv. þm. Skgf., að gefa í skyn, að jeg hefði, er jeg talaði um kolaverðið, miðað við kolaverð, eins og það hefur verið hjer í Reykjavík að undanförnu, heldur miðaði jeg við það, hve kolin mundu kosta útgerðarmenn og útlendinga, er þau væru komin hingað í höfn, en þá á að leggja tollinn á þau, og jeg hygg, að 14—15 kr. verð sje nærri lagi. Jeg miðaði við venjulegt innkaupsverð, og það hefur verið 9 „shillings“ pr. tonn. Flutningsgjald kola hefur komizt niður fyrir 7 „shillings“ pr. tonn hingað til Reykjavíkur og Austurlandsins.

Háttv. flm. taldi það mikil meðmæli með frv., að það næði svo miklu gjaldi í landssjóð af útlendingum. Það er því nýjung, sem hjer er farið fram á. Það er að vísu ekki nýjung, að útlendingar gjaldi skatta í landssjóð, er þeir hafa hag af landinu á einhvern hátt, reka hjer viðskifti eða stunda atvinnu, en það er nýjung, að reyna að rýja þá, eins og hjer er farið fram á. (Jósef Björnsson: Eigum við að hæna þá að okkur til að eyðileggja fiskimiðin?).