10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

71. mál, kolatollur

Ráðherra (H. H.):

Mín afstaða er sú, nú sem stendur, að jeg get ekki að svo stöddu staðið á móti neinum þeim tilraunum, sem fara í þá átt, að auka tekjur landssjóðsins. En jafnframt þakklætinu fyrir allar slíkar tilraunir verð jeg að láta það í ljósi, að jeg er hálfhræddur við, að ef menn leggja mjög mikið kapp á sitt frv. hver, og hvor deildin á sín frumvörp, geti svo farið, að frumvörpin reki sig hvert á annars horn, og verði hvert öðru að fjörlesti. Jeg vil mikillega mæla með því, að nefnd verði sett í þetta mál, er þá getur sjeð, hvað setur með hin önnur tekjuaukafrumvörp, og vildi jeg þá jafnframt leyfa mjer að leiða athygli væntanlegrar nefndar að því, að það. er engan veginn óhugsandi, eftir fenginni reynslu síðasta vor, að svona hár tollur á kolum mundi vekja líka mótspyrnu af hálfu sendiherra annara ríkja, eins og frumvarpið um einkasölu á kolum, sem stjórnin ætlaði sjer að leggja fyrir þingið, en varð að hætta við. Mótspyrna erlendu sendiherranna þá var aðallega sprottin af því, að þeir óttuðust, að kol yrðu dýrari handa útlendum skipum, er reka atvinnu hjer við land, en hingað til hefur verið. Fyrir því var þó engin vissa; en sje þessi tollur lagður á, þá er það fyrirfram augljóst, að kolin hljóta að hækka í verði, eigi aðeins um tollupphæðina, heldur einnig um það, sem kaupmannsálagning nemur. Þeir hafa því sömu ástæðu til þess að reisa mótspyrnu móti staðfesting þessara laga, og ef menn vildu kynna sjer það, sem sendiherra Norðmanna í Danmörku, Hagerup sagði í ræðu sinni, er hann fyrir hönd sendiherranna mótmælti einkasölunni á kolum, munu menn sjá, að hann mótmælti einnig „hækkuðum kolatolli“. Jeg man ekki í svipinn, hvort hann talaði þetta fyrir munn fleiri landa en síns lands, en eins og jeg gat um, er ástæðan til mótmæla hin sama. Og ekki væri landssjóðsins þörf borgið með því, þó að samþykt væru lög, sem stjórnin ef til vill yrði að skila þinginu aftur, um leið og hún skilaði ráðherraembættinu.