10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

71. mál, kolatollur

Jón Jónatansson:

Jeg skal ekki tefja tíma hinnar háttv. deildar mjög lengi. En jeg vil geta þess, að jeg mun greiða þessu frv. atkvæði, og geri jeg það þó ekki af því, að jeg telji það hina beztu eða heppilegustu stefnu, að leggja toll á kol, heldur af því að jeg tel tvísýni á því, hvort annað nái fram að ganga. Frumv. þau til tekjuauka, er fram eru komin hjer í þinginu, hefja nýjar stefnur, og þó að því leyti ekki nýjar, að þær stefnur hafa áður komið fram hjer á þingi og fengið sinn dóm, og tel jeg því ekki líklegt, að öðru vísi verði á þær litið nú. Jeg skal að vísu játa það, að það væri ekki óskemtilegt, ef vjer Íslendingar reyndumst það ráðsnjallari en aðrar þjóðir, að vjer gætum fundið leið til þess, að ná tolli af flestum eða öllum aðfluttum vörum án tolleftirlits, og með því orðið til fyrirmyndar í tolllöggjöf þjóðanna. En jeg er hræddur um, að þó eitthvað þessara frv. nái fram að ganga, þá munum vjer enga frægð hljóta fyrir. En jeg býst við, að reynslan mundi einmitt sýna hitt, að vjer getum ekki fremur en aðrar þjóðir komizt af án tollgæzlu. Þó vil jeg ekki segja, að taka mætti einhverju frumvarpinu sem neyðarúrræði til bráðabrigða, en hætt er við, að att verði kappi um þau, svo að þau nái ekki framgangi, og skoða jeg því frumv. þetta sem þrautalendingu.

Hæstv. ráðherra talaði um, að kolatollur mundi sæta andmælum af hálfu útlendinga, og minti á það, að Hagerup, sendiherra Norðmanna, er forgöngu hafði fyrir andmælunum gegn kolaeinkasölunni, hefði getið þess, að hins sama væri að vænta af þeirra hálfu gagnvart kolatolli. Jeg verð nú að segja það, að þó jeg ekki væri fylgjandi kolaeinkasölufrumv., eins og það lá fyrir, þá sje jeg hins vegar ekki ástæðu til þess, að vjer þurfum að sýna Hagerup neina sjerlega þakklátsemi fyrir þessa framkomu hans, eða að vjer þurfum að bíða eftir því, hvað þeim góða herra þóknast að segja um kolatoll. Að andmæli komi fram frá hálfu útlendinga gegn kolatolli get jeg ekki sjeð að vjer þurfum að óttast; þau andmæli gætu ekki verið rjettmæt. Jeg vil yfir höfuð að tala ekki taka mikið tillit til Norðmanna; ef þingið álítur einhverjar tollálögur rjettar, þá á að leggja þær á, hvað sem Norðmenn segja. Jeg get ekki sjeð, að það geti haft neinar illar afleiðingar.

Það er hyggilegt, að reyna að koma sem fyrst betri skipun á skattamál landsins, og þar til það kemst á, álít jeg, að frv. þetta um kolatollinn, bezta úrræðið. Jeg sje enga ástæðu til þess að vísa málinu til nefndar, og mótmæli Norðmanna ekki þess virði, að það þurfi að athuga þau í nefnd.