13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

71. mál, kolatollur

Björn Þorláksson:

Jeg er ekki flutnm. þessa máls, en við 1. umr. greiddi jeg atkvæði með frumv., og vil því gera grein fyrir skoðun minni, einkum þar sem jeg álit mál þetta mjög svo mikils vert og jafnvel stærsta málið, er komið hefur fram hjer á þinginu.

Þó jeg hinsvegar vilji láta þingskrifarana eiga góða daga og hafa þingtíðindin sem styzt, til þess að spara landssjóði kostnað, þá mun jeg fara nokkrum orðum um málið, en vildi ekki gera það við fyrstu umr., af því mjer þóttu umræður þá orðnar nokkuð langar.

Háttv. flutnm. þessa frumv. tók það fram við 1. umr., hvers vegna það væri fram komið og hver væri tilgangurinn með því — hann væri sá, að bæta úr fjárþröng landssjóðs. Jeg hef engu við það að bæta og ætla mjer ekki að taka upp það, sem aðrir hafa sagt um það.

Það sem jeg aftur vildi minnast á er það, hvern tekjuauka landssjóður mundi hafa af frumv. á ári, ef það yrði að lögum, og 2 kr. tollur á hvert tonn af kolum yrði samþ. í nefndaráliti milliþinganefndarinnar er skýrsla um innflutning á kolum árið 1910. Eftir þeirri skýrslu fluttist þá til landsins 70 þús. tonna af kolum. En ef þessi skýrsla er athuguð rækilega, rekur maður óðara augun í, að hún getur ekki verið rjett, og að allmikið vantar í hana af kolum, sem flutt hafa verið til landsins. Jeg skal finna þessum orðum mínum stað. Jeg skal benda á Siglufjörð. Í skýrslunni stendur, að 600 tonna hafi verið flutt þangað. En það er vitanlegt, að þangað flyzt miklu meira af þeim. Þegar á þetta er litið og þess er hinsvegar gætt, að kolainnflutningur eykst ár frá ári, muni það ekki fara fjarri sanni, sem kunnugur maður hefur gert áætlun um, að alt að 140 þús. tonna mundu verða flutt til landsins þetta ár. Það er að minsta kosti óhætt, að fullyrða, að 100 þús. smálestir yrðu fluttar hingað á ári. Þá er hægt að áætla, hve landssjóður hefði mikinn tekjuauka af kolatollinum. Það er einfaldur reikningur. Tollurinn á tonninu er 2 kr. Það eru 200 þús. kr. á ári. Þessi upphæð ásamt lítilli viðbót annarstaðar frá mundi nægja til að bæta fjárhag landssjóðs og koma honum í viðunanlegt horf.

Þá er að athuga, hverjir mundu gjalda þennan kolatoll. Hann mundi efalaust að fullum helmingi lenda á útlendingum, 1/4 á innlendum botnvörpungum, og 1/4 á kaupstaðarlýð, embættismönnum og bændum.

Við 1. umr. komu fram þau mótmæli gegn frumv., að það mundi bægja útlendingum frá landinu; jeg held, að með þessu hafi verið átt við útlenda botnvörpunga. Væri þessu rjett spáð, að frumv., ef það yrði að lögum, mundi fæla slíka útlendinga frá landinu, væri það eitt hið þarfasta frumv., er nokkru sinni hefur fram komið á alþingi Íslendinga. Það viðurkenna allir, að þeir með veiðiskap sínum, og það jafnvel þótt þeir veiði fyrir utan landhelgina, spilla fiskiveiðum Íslendinga stórkostlega. Það væri því sannarlega mikið leggjandi í sölurnar, ef hægt væri að varna þessum skemdum þeirra og fæla þá burt frá landinu, og væri vel, ef kolatollurinn yrði til þess. Jeg hygg þó, að það mundi ekki takast. En er ekki vel til fallið, að láta þá borga eihverja upphæð til landsins þarfa? Og ef þessi kolatollur frumv. yrði samþ., mundu þeir greiða að minsta kosti 100 þús. kr. á ári til þarfa þess.

Andmælendur frumv. segja, að vegna kolatollsins mundu útlendingar koma sjer upp kolastöðvum í Færeyum eða Skotlandi nyrzt. Þeir spádómar hafa áður komið fram hjer á þingi, þegar það hefur verið á dagsskrá, að leggja tolla á útlendinga, er stunduðu hjer atvinnu, og því verið haldið fram, að það mundi verða til þess, að þeir ljetu af atvinnurekstri hjer. Þessu var t. d. spáð um hvalveiðamennina, er það var til umr., að hækka toll á hvalafurðum. Þá voru spádómarnir þeir, að þeir flyttu til Færeyja eða kæmu sjer upp fljótandi hvalveiðastöðvum. Það fór nú svo, að tollur á hvalafurðum var hækkaður, en spádómarnir rættust ekki. Jeg hygg, að raunin yrði sama í því efni, er hjer er rætt um, og að þessi kolatollur fæli útlenda botnvörpunga ekki frá landinu, þótt það væri æskilegt. Íslands óhamingja er það, að útlendingar hafa átt og eiga sjer jafnan formælendur í sjálfu alþingi.

Það hefur líka verið sagt hjer í þinginu, að þessi kolatollur mundi verða til þess, að útlendingar, er hingað sækja, mundu breyta skipum sínum í diselmótoraskip til þess að geta brúkað olíu í stað kola. Jeg hygg, að hann mundi hafa lítil áhrif í þessu efni. Er ekki líklegt, að sú breyting verði smátt og smátt, hvort sem nokkur tollur er lagður á eða ekki? En jeg segi: „Er á meðan er“. Á þeim tíma, er lög þessi eiga að gilda — til ársloka 1915 — mundu vart stórbreytingar eiga sjer stað í þessu efni. Jeg hygg, að þessi útlendu skip mundu halda áfram að kaupa kol hjer eftir sem áður.

Annars sætir það mestu furðu, hve menn eru hræddir við að leggja toll á vöru, sem við brúkum talsvert af sjálfir, af því að útlendingar brúka líka allmikið af henni. Það hefur mátt skilja það á orðum sumra andmælenda þessa frumv., að þeir óttast, að við munum sæta þungum búsyfjum af hálfu útlendra ríkja vegna tollsins, að þau mundu rísa upp og mótmæla þessu, og ef mótmælin hrífa ekki, halda menn, að þau munu gjalda líku líkt með tollálögum á ýmsum vörum, er oss kæmi verst. Þessi hræðsla er ástæðulaus. Jeg held, að menn geri of mikið úr áhrifum kolatollsins erlendis. Jeg sagði áðan, að kolatollurinn allur mundi nema að minsta kosti 200 þús. kr. á ári. Setjum nú svo, að útlendingar keyptu hjer kol svo mikil, að tollurinn af þeim yrði 150 þús. kr. Þá er að athuga, hvaða þjóðir mundu kaupa þessi kol. Það eru aðallega 5 þjóðir, er kaupa hjer kol: Norðmenn, Danir, Englendingar, Frakkar og Þjóðverjar. Það yrðu þá 30 þús. kr. að meðaltali á hverja þjóð. 30 þús. kr. þykir nú ekki stór upphæð hjer á þingi, þegar verið er að ræða um fjárlög okkar litla lands, en það á að vera stór upphæð, þegar um þessa útlendinga er að ræða. Þetta er svo hlægilegt, að það er ekki svara vert. Hvernig getur nokkrum manni komið til hugar jafnmikil fjarstæða sem sú, að útlendingar mundu rísa upp af jafnlítilli upphæð sem þessari. Og því fráleitara er að halda því fram, að slíkt geti komið fyrir, þegar þess er gætt, að hjer er sama látið ganga yfir alla, útlenda og innlenda menn, kolatollurinn jafn fyrir alla. Öðru máli væri að gegna, ef útlendingar yrðu að greiða hærri toll, en Íslendingar. Jeg get ekki sjeð, að ástæða væri til að ætla, að útlendingar væru svo ósanngjarnir að fárast um slíkt, þótt um miklu stærri upphæð væri að ræða, en þetta, sem frv. fer fram á. Það er helzt svo að sjá, sem menn sjeu hræddir við útlendinga. Við eigum víst alt af að spyrja þá, hvort þeim þóknist, að við gerum þetta og þetta. En ekki fara þeir þannig að gagnvart okkur. Englendingar hafa bannað innflutning á sauðfje einnig frá Íslandi. Norðmenn tolla kjöt og hesta líka frá okkur og spurðu okkur ekki að. Eins verðum við Íslendingar að vera sjálfráðir um tollmál okkar fyrir öðrum þjóðum.

Jeg get því ekki sjeð neitt því til fyrirstöðu, að kol sjeu tolluð samkvæmt frv., þó að að útlendingar verði með því móti að borga nokkuð í landssjóð.

Enn eitt áður, en jeg skil við þetta atriði: Háttv. 4. kgk. þm. sagði, að kolatollurinn samkvæmt frv. næmi 14%. Þetta er ekki rjett. Miða verður við hið almenna kolaverð í útsölu hjer í landinu, og því verður tollurinu 8—10 af hundraði.

Þá kem jeg að íslenzku botnvörpungunum. Þeir mundu, eins og jeg sagði í byrjun ræðunnar, að líkindum greiða 1/4 af þessum tolli. Því hefur verið haldið fram, að þessi tollur mundi íþyngja þeim um of. Einn háttv. þingdeildarmaður — það var að jeg ætla háttv. 2. kgk. — mjer þykir leiðinlegt, að hann er ekki hjer inni í salnum nú — sagði við 1. umr., að hver botnvörpungur notaði að meðaltali 1.500 tonna, og að frv. legði því 3.000 kr. skatt á þá. Hjá kunnugum manni hef jeg spurzt fyrir um kolaeyðslu botnvörpunga hjer og fengið þá vitneskju, að hún nemi frá 1.000—1.200 tonna, og að á Íslandi kaupi þeir ekki meira en 800 tonna, af kolum; hitt kaupa þeir í útlöndum, er þeir bregða sjer þangað. Þeir þurfa því ekki að borga meira í landssjóð, en 1.600 kr. í hæsta lagi. Það er nær því hálfa minna, en hinn háttv. 2. kgk. þm. hjelt fram. Og þegar þess er nú gætt, að botnvörpungar veiða um árið fisk fyrir 150—200 þús. kr. og að þeir hafa sumir borgað skip sitt upp á 3 árum, þá fæ jeg ekki sjeð, að 1.500—1.600 kr. aukakostnaður á ári gerði þeim nokkuð til eða frá.

Jeg sagði, að 1/4 hluti tollsins mundi lenda á kaupstaðarlýð, embættismönnum og bændum. Við 1. umr. frv. var það sagt af andmælendum frv., að bændur keyptu engin kol og mundu engin kol kaupa. Og einn háttv. þingdm. sagði, að ekki 1/1000 partur af þeim kolum, sem brúkuð væru í landinu, væri keyptur af bændum. Hvortveggja þessi ummæli eru röng. Í sumum hreppum landsins eru svo mikil kol keypt, að nemur meira en 1/1000 af öllum kolunum. Jeg þekki bændur, sem brúka til upphitunar og eldunar 15—20 tonna af kolum. Mjer er kunnugt um, að kolabrúkun bænda fer sumstaðar að minsta kosti vaxandi. Þeim þykir dýrara að brenna dýrmætum áburði, en kolum. Og mjer þykir líklegt, að þeir bændur munu fjölga, sem kolunum brenna, eftir því sem velmegun vex og akbrautum frá sjá til sveita fjölgar. Þeim mun æ betur og betur skiljast, að það er dýrara, að brenna taði en kolum.

Jeg sleppi því að minnast á, að tollurinn íþyngir embættismönnum landsins. Fæstir munu líta svo á, að þeir geti ekki borið þá byrði.

Þá kem jeg að kaupstaðarlýðnum.

Því verður ekki neitað, að kolatollurinn mundi koma þungt niður á fátæklingum í kaupstöðum og sjávarþorpum. En enn þyngri mundi þó koma niður á þeim aðflutningstollur á öllum þeim nauðsynjum, er þeir verða að sækja í kaupstaðinn. Þetta segi jeg vegna annara tollfrv. sem eru á leiðinni í þinginu. Fátæklingar í kaupstöðum mundu því sleppa talsvert betur, ef þetta frv. yrði að lögum, heldur en ef hin frumv. næðu fram að ganga. Þetta frv. fer bezt með þá.

En ef reynslan sýndi, að þessi kolatollur kæmi hart niður á einstökum stjettum, þá mundu vera ráð til að bæta þeim það upp á einhvern hátt. Það mætti t. d. taka tillit til þess í styrkveitingum til ýmsra framfarafyrirtækja, er þeim kæmi að gagni. Þannig mætti hlynna að innlendum botnvörpuveiðum með sjerstökum fjárveitingum. Jeg skal og leyfa mjer að minna á, að á síðasta þingi var veittur 5 þús. kr. styrkur til fiskiveiðafjelags Íslands, ef það kæmist á stofn. Þegar fjelag þetta er komið á laggirnar og orðið meira en pappírsfjelag, mætti og ætti að hækka þann styrk. Og fleiri dæmi mætti nefna.

Það er auðsjeð af því, sem jeg hef sagt, að jeg fylgi flm. þessa frv. að máli, og að jeg muni greiða því atkvæði mitt út úr deildinni. Það er þó ekki svo að skilja, að jeg sjái ekki agnúa á því, en jeg tel það skást af þeim frv., sem enn hafa fram komið í því skyni að bæta úr fjárþröng landssjóðs nú og seinna. Jeg held og, að þótt þingið sæti mánuðum saman eða jafnvel alt árið, mundi því ekki takast að finna frumv., sem allir væru ánægðir með, eða engir agnúar fyndust á. Jeg held, að þau tolllög verði ekki búin til, þar sem álögurnar koma rjettlátlega niður á öllum.

Að síðustu skal jeg stuttlega taka fram helztu kosti þessa frv.

1. Það er ekki hægt að hafa svik í frammi eða svíkja undan tolli eftir því (Steingrímur Jónsson: Því er það ekki hægt, t. d. á Siglufirði?). Ja, mjer er spurn: Hljóta eigi útlend skip að vera háð þeim lögum og reglum, sem hjer gilda.

2. Innheimta verður mjög ljett samkvæmt því, ólíku ljettari, en hún verður eftir hinum frv., er liggja fyrir þinginu. Reyndar skal jeg játa, að jeg er ekki eins kunnugur þessu efni og skyldi. En jeg hygg samt, að sýslumenn munu komast að raun um, að þetta er rjett skoðun.

3. Þá er einn kosturinn enn og hann vegur þungt í metaskálunum hjá mjer, og hann er sá, að útlendingar mundu borga fullan helming hans. Og það eru þeir útlendingar, sem spilla veiði fyrir landsins börnum.

4. Að vísu kemur tollurinn all hart niður á fátæklingum í sjávarþorpum og kauptúnum, en hann kemur ljettara niður á þeim, en álögur þær, er hin frv. fara fram á.

5. Hjer á þingi er oft talað um vilja kjósenda. Jeg tel vafalaust, að þessi tollur yrði yfir höfuð hjá þjóðinni vinsælasti tollurinn, miklu vinsælli, en aðrir tollar, er bent hefur verið á, og jeg verð að segja, að jeg er alveg mótfallinn br.till., sem fer fram á að lækka tollinn niður í eina krónu. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta meira að sinni.