13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

71. mál, kolatollur

Jens Pálsson:

Eftir því, sem jeg hef skilið háttv. flm. þessa máls, er sterkasta meðmælaástæða hans fyrir frv. sú, að hann fullyrðir, að helmingur þessa gjalds komi frá erlendum þjóðum.

En nú vil jeg leyfa mjer að spyrja háttv. flm., hvort þetta sje virkileg alvara hans; hvort ekki sje hugsanlegt, að honum hafi á einhvern skjátlazt.

Þeir háttv. þm., sem talað hafa með þessum 2 kr. kolatolli, þykja mjer hafa gert nokkuð lítið úr því, hve gjaldið í raun og veru er hátt, og þessir sumu hv. þm. virðast líka alveg hafa gleymt að taka tillit til þess, að allur þorri hinna erlendu skipa dvelur hjer að eins nokkurn hluta af árinu — og það getur strax breytt nokkru til um útreikning háttv. þingmanns V.-Sk.

Jeg hlýddi um daginn í Nd. á það, að bæjarfógetinn í Reykjavík lýsti yfir því, að það hefði ekki komið til orða síðastliðin 40—50 ár, að heimta toll af tollskyldum vörum, sem fluttar eru skip úr skipi; vörur þessar eru blátt áfram skoðaðar sem transitvara.

Síðastliðin ár hafa Frakkar bætt skipaflota sinn mjög mikið hjer við land; seglskipin, sem þeir höfðu áður, eru að hverfa, en í stað þeirra eru komnir nýmóðins, stórir botnvörpungar. Þeir hafa flutt kol í botnvörpunga þessa í stórum döllum, sem til þess eru ætlaðir, og geta þeir áætlað, hvenær þurfi að senda kolin; ef þeir skipa kolunum á land, þá þurfa þeir að borga dýra uppskipun og útskipun, en við því hlífa þeir sjer; og skyldu þeir þá ekki einnig vilja hafa sig undanþegna þessum 2 kr. tolli eftir frumv. og hafa sitt mál í því efni fram. Enda er í þessu efni eftir miklu fyrir þá að slægjast, því að umskipunarkostnaðurinn einn er varla teljandi, aðeins fáir aurar á hvert tonn.

Nú liggur í hlutarins eðli, að við getum ekki haft nokkurt eftirlit með því, bæði vor og sumar, hvort slík umskipun fer fram fyrir höfnum úti eða ekki, og slíkt eftirlit, ef það yrði reynt, mundi kosta mjög mikið, svo mikið, að frágangssök mundi þykja.

Það er gott að vera einvaldur og þurfa ekki að láta rjett sinn fyrir útlendingum, en jeg er hræddur um, að útlendingar mundu, er svona væri með farið, krefjast þess, að vara þessi yrði skoðuð sem transitvara, enda gætu þeir hæglega sent vöruna með „conossement“, svo að hún yrði opinberlega stimpluð sem transitvara, og þá held jeg, að við stæðum ekki rjett vel að vígi um tollheimtuna, því að eftir almennum siglingareglum þjóðanna er transitvara tollfrí. Og gætu Frakkar þetta, sem jeg tel ekki efamál, þá held jeg, að Englendingum yrði ekki skotaskuld úr því, auk þess að þeir geta altaf skroppið með fiskinn glænýjan til Englands og þá jafnframt kolað. Jeg er þessvegna hræddur um, að minna kæmi í kassann af þessum kolatolli en þessi helmingur, sem flutnm. ætlar útlendingum að greiða. Af þessu er augljóst, að það er mjög svo erfitt, að framfylgja 2. gr. frumv., og hún því þýðingarlaus eða mjög þýðingarlítil.

Háttv. 4. kgk. þm. hefur annars hrundið flestu eða öllu, sem frumv. er talið til ástæðulítilla meðmæla. Háttv. 6. kgk. þm, vildi fæla útlendu fiskiskipin burtu. (Björn Þorlákss.: Botnvörpungana) já, en það eru fleiri fiskiskip en þau, er koma hingað til að kaupa kol. Það er lítið um botnvörpunga í Seyðisfirði og því eðlileg vanþekking hins háttv. þm. um þetta; við þekkjum það betur hjer á Faxaflóa, sem er aðalmið þeirra.

En það nær ekki nokkuri átt; þeir mundu miklu fremur útvega sjer kol á einhvern þann hátt, er jeg hef áður tilgreint (Jósef Björnsson: Og borga tollana) nei, koma sjer hjá að borga þennan toll, sem er of hár.

Skip þessi greiða mikið til landssjóðs, t. d. vitagjald og hafnargjald, auk þess að þau verzla hjer mikið og það er góð verzlun, því að vörurnar eru borgaðar, ekki lánaðar út í óvissu. Auk þess selja sumir botnvörpungarnir innlendum kaupmönnum fisk sinn, en af því leiðir atvinna fyrir almenning, hagnaður fyrir kaupmennina og útflutningsgjald fyrir landssjóð. Það væri því ekki hagnaður, að útrýma útlendu fiskigufuskipunum hjeðan, og það væri hreint og beint glapræði, að leggja á svo háan kolatoll, að þeir færu kring um lögin, er þeir koluðu.

Auk þess, sem jeg hef þegar tekið fram viðvíkjandi tollskyldu á vörum, sem eru fluttar skip úr skipi, vil jeg taka það fram, að Frakkar hafa hin síðari ár sent hingað stór skip til að sækja fiskinn og fer umskipun þeirra fram ekki á höfnum inni, heldur úti fyrir höfnum, og ekkert útflutningsgjald er af þeim fiski greitt; er þetta eitt með öðru, er sýnir, að ekki má gera sjer of háar vonir um þennan kolatoll.

Kolaþörf kaupstaðarbúa er mjög mikil, og ef frumv. þetta verður að lögum, hvílir það þyngst á þeim, einkum þeim, sem fátækir eru, því að eins og háttv. 4. kgk. þm. sagði, þá þurfa þeir meiri kol vegna þess að húsakynni þeirra eru verri og þurfa meira til hitunar. Þeir hafa auk þess lítið viðurværi, og hitinn er á við hálfa gjöf.

Háttv. 4. kgk. þm. sýndi það ljóst, að það er sáralítið notað af kolum upp til sveita, t. d. í Skaftafellssýslu ekkert nema í kauptúnunum (Jósef Björnsson: Það eru fleiri sýslur til), enda er ókleyft, að flytja kol landveg. Við vitum, hvað tvíhjóla vagnarnir taka mörg pund, en þeir eru mest notaðir, og er mjög dýr flutningur, enda er í mörgum sveitum ekki notað kolablað og jafnvel í heilum sýslum, eins og í Austur-Skaftafellssýslu. Í kaupstöðunum eru þau aftur nokkuð notuð.

Jeg skal taka það fram, að jeg tala ekki í þessu sambandi um Austfirði, því að firðina þar verður miklu fremur að telja með kauptúnum og sjóplássum en með sveitum, og eiginlega er engin sveit þar nema Fljótsdalshjerað (Björn Þorláksson: Virkilega, er það það?) Að öllu þessu yfirveguðu, hallast jeg að breyt.till. þeirri, er fyrir liggur, því að með henni tel jeg þó líkindi fyrir, að landssjóður fái einhverjar tekjur.