14.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

71. mál, kolatollur

Sig. Eggerz (flm.):

Háttv. 3. kgk. hefur nú lýst afstöðu sinni í þessu máli. Hann kvaðst vera andvígur frumv. vegna þess, að það kæmi ranglátlega hart niður á botnvörpunga-útgerðina og fátæklingana í kauptúnunum.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar útí það atriði, en jeg hef þegar gert. Ef tollurinn er harður í garð botnvörpungaútgerðarinnar, sem öllum kemur saman um að borgi sig allra fyrirtækja bezt, (Sig. Stef. Nei!), þá mætti ívilna útvegnum á ýmsan hátt. Og þareð ½ tollurinn kemur á útlendinga, stöndum við okkur ennþá betur við það.

Háttvirtur þm. Gullbr.- og Kjósarsýslu mintist á, að sumir botnvörpungar borguðu sig ekki vel; það þykir mjer engin saga. Jeg býst við, að það geti komið fyrir öll fyrirtæki; ef mennina, sem þeim stjórna, brestur hagsýni og þekkingu, þá sje ekki góðs að vænta. Til dæmis ef ósjófróðir menn færu að stjórna botnvörpunga útgerð, og blanda sjer þannig inn í fyrirtæki, sem þeir hafa ekkert vit á. —

Alls ekki var það meining mín, að krefjast þess af háttv. þm. Gullbr.- og Kjósarsýslu, að hann færi að rekja æfiferil sinn. Jeg þykist líka mega fullyrða, að sannarlega sjeu sumir menn þannig gerðir, að þá vanti algerlega allan sálarþroska til að skilja og setja sig inní líf og hætti manna í því bygðarlagi, sem þeir eru, og þótt þeir hafi árum saman átt heimili á sama stað, þá geti þeir alls engan dóm lagt á lifnaðarhætti manna — geti aldrei skilið þá. Því fór svo fjarri í þetta sinn, að mjer dytti í hug að kenna hænunni. Hinn háttv. þm. þóttist hafa fundið mótsögn hjá mjer, er jeg talaði um fátæklingana; en jeg þykist fyllilega hafa verið sjálfum mjer samkvæmur. Hann sagði, að jeg hefði haldið því fram, að fátæklingarnir brúkuðu engin kol, af því þeir hefði ekki efni á því. — Það sagði jeg aldrei, en þau kol, sem þeir kaupa, þau fara frekar til að elda matinn, en ekki til þess að hita upp. Hann hjelt því fram, að kolatollurinn kæmi þyngra niður á fátæklingunum af því þeir notuðu eins mikil kol og efnamennirnir. (Jens Pálsson.: að tiltölu við efnahag). Vitanlega kemur hann nokkuð hart niður á fátæklingum í sjávarþorpunum. Bezt væri auðvitað, að allir tollar væru rjettlátir og kæmu aldrei niður á fátæklingunum. En látum okkur nú líta á þetta frv. í sambandi við hin tekjufrumvörpin, sem liggja fyrir þinginu núna. Ef t. d. farmgjald eða faktúrutollur væru teknir fram yfir kolatollinn, þá mundu slíkar tollálögur koma mikið harðar niður á fátæklingana. Fátæklingarnir þurfa að sækja mest allan sinn varning eða sínar nauðsynjar í búðirnar og borga því hlutfallslega mikið meiri toll en efnamennirnir, ef eitthvað af þeim frv. verður að lögum. — Auk þess, ef t. d. verðtollur kemst á, þá afsalar löggjafarvaldið sjer öllu eftirliti með því, með hvaða tollstofnum landsmönnum verður íþyngt, og fær allt það vald í hendur kaupmönnum. Mundi það verða fátæklingunum heppilegt? Er ekki líklegt, að kaupmenn leggi mest á þá vöru, sem fljótast og áreiðanlegast gengur út?

Ætli það verði ekki nauðsynjavaran, matvaran, sem verður fyrir mestum tollinum? Og hvernig eru þá fátæklingarnir staddir! ?