19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

71. mál, kolatollur

Sigurður Eggerz, (flm.):

Það er óþarfi, að eyða löngum tíma til þess, að ræða mál þetta nú, það er búið að þrautræða það svo hjer í hinni háttv. deild.

Við flutnm. höfum komið fram með breyt.till. um, að lækka kolatollinn úr 2 kr. niður í 1 kr. 50 au. á tonni, og hyggjum, að með því móti geti háttv. deildarmenn allir fallizt á það, og jafnframt teljum við, að þó ekkert annað tollafrv. yrði samþ. hjer á þinginu, þá fengi landssjóður með því nægar tekjur til að bæta úr brýnustu þörf sinni.

Ennfremur höfum við komið fram með breyt.till. um að kolin sjeu ekki tollskyld, þó umskipuð sjeu utan hafna, og höfum við gert það bæði vegna þess, að eftirlit er örðugt með umskipun utan hafna, en mjög hæg eins og frumv. verður, og eins vegna hins, að því er kastað hjer fram, að núverandi ákvæði frumv. um þetta gæti, þó ólíklegt sje, ef til vill staðið frumv. fyrir þrifum.

Viðvíkjandi ummælum þeim er fallið hafa hjer í háttv. deild, um að frumv. þetta mundi ekki ná staðfestingu, vil jeg benda á ummæli Kl. Berntsens forsætisráðherra, sem tilfærð eru í samtali, er hann hefur haft við danskan blaðamann, og liggja frammi á lestrarstofunni. Þar minnist hann á fjárþröng vora og telur kolatoll hagkvæmustu leiðina, til að ráða fram úr henni. Hann tekur fram, að þó sendiherrar útlendra þjóða hafi mótmælt „monopoli“ á kolum, þá geti um slík mótmæli ekki verið að ræða, þegar um toll á frjálsri kolaverzlun sje að ræða, sem komi jafnt niður á landsins börnum sem öðrum þjóðum, og þessi ummæli, sem jeg efast ekki um að sjeu rjett höfð eftir, sýna, að ekki þarf að bera kvíðboga fyrir því, að frumv. þessu verði synjað staðfestingar.

Annars tel jeg óþarfa, að fjölyrða meira um málið að sinni.