08.08.1912
Efri deild: 19. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

68. mál, meðferð fjárkláðans

Þórarinn Jónsson:

Þegar frumvarpið var síðast til umræðu hjer í deildinni, kom það fram í ræðu hins hæstv. ráðherra, að tími sá, er ætlaður var stjórnarráðinu til að athuga kláðaskoðunarskýrslurnar og annað, er að málinu liti, væri alt of stuttur, svo að ómögulegt yrði fyrir stjórnina, að undirbúa málið fyrir þing 1913.

Til þessarar mótbáru er það að segja, að stjórnin er ekki ein um verkið, þar sem hún hefur dýralækninn sjer við hönd, svo eigi þarf að berja því við, að ekki sje nægilegur starfskraftur til. Enda ætti dýralækninum að vera það verk sjerlega ljúft samkvæmt stöðu sinni, og mundi því kostgæfa það af alhug. Þetta þarf því ekki að óttast.

Þá vildi jeg drepa á það, að nefndin vill, að stjórnin fyrirskipi böð samkvæmt lögum nr. 40, 8. nóv. 1901. Það hefur verið í nefndinni talið mjög mikilsvert atriði, að framfylgja þessum lögum, þar sem reynslan hefur sýnt það, að þar sem kláðinn hefur komið magnaðastur upp, t. d. í Árnessýslu — og þar var alt fje baðað — hefur hann að mesta leyti horfið með því að ráðast á hjeraðið alt, og þessi reynsla mundi verða söm annarstaðar. Og algerlega hið sama hefur sýnt sig út um land, þar sem kláði hefur komið upp, og baðað hefur verið samkvæmt fyrirskipun stjórnarráðsins og dýralæknis að eins hið sjúka fje, að kláðinn hefur batnað þar, en fært sig til, komið upp annarstaðar, af því hjeruðin hafa ekki verið tekin öll fyrir í einu. Hefði það verið gert jafnóðum, er það skoðun mín, að kláðinn væri nú horfinn, eða mundi innan skams hverfa.

Hvað kostnaðinn snertir, er það heldur ekki svo fráfælandi. Því nú liggur mikið fyrir af baðlyfjum, mikið af tóbaki, víðsvegar um landið, sem liggur undir stórskemdum, ef sumt af því er ekki orðið ónýtt. — Ef nú kláði kæmi upp til muna í einhverju hjeraði, sýndist ekki ótiltækilegt, að koma þessum baðlyfjum þangað, rannsaka hvað at þeim mætti nota, og baða svo úr því, sem brúklegt væri.

Kostnaðurinn fyrir landssjóð yrði því ekki tilfinnanlegur, en hins vegar lítt afsakanlegt fyrir landsstjórnina, að gæta þess eigi betur, hvernig þessi baðlyf hafa verið geymd, ef mikið af þeim skyldi vera orðið ónýtt.